Fótbolti

Spjaldaður fyrir að fagna marki sem síðan VAR dæmt af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marek Hamsik.
Marek Hamsik. Vísir/EPA
Myndbandadómarar hafa verið mikið að stela senunni á síðustu dögum og með ýmsum hætti. Eitt skrýtið dæmi var í leik hjá toppliði ítalska fótboltans í gær.

Slóvakinn Marek Hamsik hélt þá að hann hefði innsiglað sigur á Torino með öðrum marki liðsins og hann fagnaði því með því að brjóta hornfánann.

Þetta voru hinsvegar ótímabær fagnaðarlæti og fagnaðarlæti sem höfðu sínar afleiðingar.  

Dómari leiksins dæmdi markið fyrst gilt en fékk síðan orð í eyra frá myndbandadómaranum sem vildi skoða markið betur.

Eftir þá skoðun kom í ljós að Marek Hamsik var rangstæður þegar hann skallaði boltann í markið og markið hans var því dæmt af.





Í millitíðinni hafði dómari leiksins aftur á móti spjaldað Marek Hamsik fyrir að brjóta hornfánann í fagnaðarlátum sínum.

Napoli vann leikinn 1-0 með marki Brasilíumannsins Allan og komst þar með aftur upp í toppsæti deildarinnar. Þetta var níundi deildarsigur liðsins í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×