Lögreglan á Vesturlandi sinnti margvíslegum verkefnum um nýliðna helgi. Þorri var blótaður víðsvegar í umdæminu en lögreglan segir blótin hafa farið vel fram og ekki teljandi afskipti lögreglu vegna þeirra.
Nokkrar vinkonur skelltu sér hins vegar í sund í Bjarnalaug á Akranesi utan opnunartíma og var lögreglan fengin til að vísa þeim úr lauginni.
Umferðaróhöpp settu einnig svip sinn á helgina en helst ber að nefna að bifreið var ekið utan í vegg í Hvalfjarðargöngunum. Þá varð bílvelta á Vatnaleið og árekstur tveggja ökutækja á vegamótum á Akranesi. Ekki urðu alvarleg slys á fólki í þessum óhöppum en talsvert eignatjón.
Lögreglan á Vesturlandi hafði afskipti af fjölda ökumanna við hefðbundið eftirlit um helgina. Einn ökumaður sem stöðvaður var í Borgarnesi reyndist vera sviptur ökuréttindum auk þess að vera undir áhrifum fíkniefna.
Við hraðamælingar voru fjórir ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt innanbæjar í Borgarnesi þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 km/klst. Sá sem hraðast ók mældist á 89 km hraða.
Ökumaður var svo stöðvaður rétt norðan við Borgarnes þar sem hann ók bifreið sinni á 147 km hraða. Hann reyndist einnig ölvaður og sviptur ökuréttindum ævilangt.
Lögreglan hafði afskipti af vinkonum sem stálust í Bjarnalaug
Birgir Olgeirsson skrifar
