Innlent

Vímaðir fylltu fangageymslur í nótt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan í Kópavogi, sem og í öðrum höfuðborgarsveitarfélögum, hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan í Kópavogi, sem og í öðrum höfuðborgarsveitarfélögum, hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/Vihelm
Ökumaður bíls, sem lögregla stöðvaði á Reykjanesbraut á móts við Helluhverfi á öðrum tímanum í nótt, var undir svo miklum áhrifum fíkniefna að hann var ekki viðræðuhæfur um eitt eða neitt. Hann var vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður þegar víman verður runnin af honum.

Annar vímaður ökumaður varð valdur að árekstri á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg á tólfta tímanum. Draga þurfti aðra bifreiðina af vettvangi en ekki hefur verið hægt að yfirheyra tjónvaldinn vegna vímu. Hann hefur einnig fengið að sofa úr sér vímuna í fangaklefa í nótt.

Svipaða sögu er að segja af öðrum ökumanni, sem stöðvaður var í Vallahverfinu í Hafnarfirði skömmu síðar. Hann var í mjög annarlegu ástandi að sögn lögreglu, og gistir líka fangageymslur.

Tveir einstaklingar voru að sama skapi handteknir í Kópavogi skömmu eftir miðnætti vegna aðkomu að fíkniefnamáli. Báðir voru þeir fluttir í fangageymslu þar sem þeir, rétt eins og fyrrnefndu mennirnir þrír, voru í svo mikilli vímu að ekkert vitrænt fékkst úr þeim. Þannig vildu þeir ekkert kannast við fíkniefnin sem lögreglan fann í bíl þeirra - en annar maðurinn, í fyrrnefndu ástandi, hafði ekið bifreiðinni.

Annars komu 30 mál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru fangageymslurnar við Hverfisgötu fullar, sem fátítt er í miðri viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×