Erlent

Áhugastjörnufræðingur fann týnt gervitungl

Kjartan Kjartansson skrifar
IMAGE-geimfarið sendi meðal annars myndir af miklum sólstormi til jarðar árið 2000.
IMAGE-geimfarið sendi meðal annars myndir af miklum sólstormi til jarðar árið 2000. NASA
IMAGE-gervitunglið sem bandaríska geimvísindastofnunina NASA missti samband við fyrir tólf árum er komið í leitirnar þökk sé áhugastjörnufræðingi í Kanada. Svo virðist sem að hluti af stýrikerfi geimfarsins sé enn í gangi.

Scott Tilley, áhugastjörnufræðingur í Kanada, var að leita að ummerkjum um leynilegan leiðangur á vegum SpaceX-geimferðafyrirtækisins sem mistókst í janúar þegar hann rakst á merki frá óþekktu gervitungli. Tilley komst að því að merkið kæmi frá NASA-geimfari og leiddi líkum að því að þar væri IMAGE-geimfarið á ferðinni.

Starfsmenn NASA könnuðu málið í kjölfarið og beindu neti útvarpssjónauka sinna að uppsprettu merkisins. Fundur geimfarsins var staðfestur í kjölfarið, að því er segir í frétt CNN. Ekki var nóg með það heldur kom í ljós að hluti af aðalstýrikerfinu var enn virkur.

IMAGE var skotið á loft í mars árið 2000 með það að markmiði að rannsaka segulsvið jarðarinnar. Leiðangurinn heppnaðist og gerðu vísindamenn fjölda uppgötvana með gögnunum sem IMAGE sendi til jarðar.

Upphaflega átti leiðangurinn að standa yfir í tvö ár en hann var framlengdur. Samband tapaðist skyndilega við geimfarið í desember árið 2005. NASA taldi þá að eitthvað hefði hent orkuforða geimfarsins og það orðið óstarfhæft.

Nú ætlar NASA að halda áfram að greina gögn frá geimfarinu og reyna að ná stjórn á því aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×