Íslenski boltinn

Guðmundur Karl: Fékk samningstilboð í gær og samdi í morgun

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gummi Kalli í leik með Fjölni fyrir tveimur árum.
Gummi Kalli í leik með Fjölni fyrir tveimur árum. vísir/vilhelm
Guðmundur Karl Guðmundsson, annar tveggja leikmanna sem gekk í raðir Fjölnis frá FH í dag, segir að viðræðurnar við Fjölni hafi ekki tekið langan tíma. Það hafi komið tilboð í gærkvöldi og hann samþykkt í morgun.

„Það er mjög gott að vera kominn aftur heim. Það er ekki langt síðan að ég var hérna síðast, en það er virkilega gott að vera kominn heim,” sagði Guðmundur Karl og aðspurður sagði hann að viðræðurnar hafi ekki tekið langan tíma.

„Það er mjög stutt síðan. Rétt fyrir helgi kom þetta upp og ég fékk samningstilboð í gær. Ég samdi svo í morgun þannig að þetta tók ekki langan tíma.”

Bergsveinn Ólafsson gekk einnig í raðir Fjölnis í dag, en Bergsveinn og Guðmundur Karl hafa spilað saman síðustu fjölda ára ef undanskilið er eitt ár. Guðmundur er ánægður með að vera áfram samherji Bergsveins.

„Fínt að hafa Begga. Við erum búnir að vera saman nánast alltaf, fyrir utan eitt ár sem hann var í FH. Mér líkar vel við Begga og það er gott að hafa hann.”

Fjölnir er með ungt og mjög spennandi lið um þessar mundir og Guðmundur Karl er spenntur fyrir þeim áskorunum sem bíða hópsins.

„Mikið af þessum strákum sem hafa verið að spila á undirbúningstímabilinu voru bara krakkar að leika sér í Egilshöllinni þegar maður var að æfa sjálfur hérna fyrir nokkrum árum,”

„Mig hlakkar bara til að mæta á fyrstu æfinguna á morgun og hitta hópinn. Ég er mjög spenntur fyrir að koma hingað aftur,” sagði Guðmundur Karl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×