Innlent

LHÍ fær auka­fjár­fram­lag vegna hús­næðis­mála skólans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, vill bæta húsnæði LHÍ.
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, vill bæta húsnæði LHÍ. vísir/ernir
Listaháskóli Íslands fær 30 milljónir aukalega til þess að vinna þarfagreiningu fyrir nýtt framtíðarhúsnæði skólans og standa að samkeppni um það. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, sem fundaði með nemendum skólans um slæma húsnæðisstöðu í hádeginu í dag.

Í framhaldinu fór hún að skoða húsnæði skólans á Sölvhólsgötu þar sem sviðslistadeildin er til húsa en nemendur í þeirri deild ætla sér ekki að greiða skólagjöldin fyrir þessa önn nema aðstaða þeirra til náms verði bætt.

Aðstaðan að Sölvhólsgötu er bágborin og til að mynda hefur efstu hæð hússins verið lokað vegna myglu. Þar með misstu nemendur lesrými sitt og þá hafa þeir aðeins einn lítinn sal fyrir leikæfingar.

Lilja segir í færslu sinni að heimsókn hennar í skólann í dag hafi í einu og öllu staðfest þá sögu sem nemendur hafa að segja um aðstöðuna. Ríkisstjórnin ætli sér að gera betur í húsnæðismálum skólans:

„Við ætlum að gera betur í húsnæðismálum skólans eins og kemur fram í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Skólinn hefur fengið 60 milljónir í ár til þess að flytja sviðslistadeild sína í Laugarnes og að auki fær skólinn 30 milljónir til að vinna þarfagreiningu fyrir nýtt framtíðarhúsnæði og standa að samkeppni um það. Kennarar og nemendur í skólanum vinna frábært starf og það er mikilvægt að efla það til framtíðar,“ segir í færslu menntamálaráðherra sem sjá má hér fyrir neðan.



.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×