Innlent

Árásarmaður ófundinn eftir líkamsárás á Laugavegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fangageymslur eru fullar eftir nóttina en mikill erill var hjá lögreglu.
Fangageymslur eru fullar eftir nóttina en mikill erill var hjá lögreglu. Vísir/Eyþór
Tilkynnt var um líkamsárás á Laugavegi í miðbæ Reykjavíkur laust eftir klukkan 3 í nótt. Gerandi fannst ekki, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fórnarlamb árásarinnar hafði misst meðvitund en var að ranka við sér þegar lögregla kom á vettvang. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og er árásarmaðurinn ófundinn.

Laust eftir hálf 6 í morgun var svo tilkynnt um slagsmál í Austurstræti og var einn maður fluttur með sjúkrabíl á slysadeild vegna áverka á höfði og baki. Vitni gátu bent á tvo meinta árásarmenn og voru þeir handteknir og vistaðir í fangageymslu.

Þá tilkynnti húsráðandi í miðbænum um innbrot um klukkan hálf 6 í morgun eftir að hafa vaknað við læti. Gerendur, maður og kona, létu sig hverfa af vettvangi en vitað er um hvaða fólk ræðir.

Lögreglu bárust einnig upplýsingar um kannabisræktun í kjallaraíbúð. Um var að ræða nokkra tugi plantna og verður húsráðandi boðaður síðar í skýrslutöku.

Fangageymslur lögreglu eru auk þess fullar eftir nóttina. Flestir voru vistaðir vegna ölvunar eða annarlegs ástands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×