Sport

Tímamótasamningur Icelandair og ÍSÍ

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Icelandair og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands endurnýjuðu í dag samning um samstarf sitt og er samningurinn sá umfangsmesti til þessa. Þá endurnýjaði Icelandair einnig samstarfssamning við fimm sérsambönd innan ÍSÍ; KSÍ, HSÍ, KKÍ, GSÍ og ÍF.

Samningurinn staðfestir Icelandair sem einn af fimm aðalstyrktaraðilum í Ólympíufjölskyldu ÍSÍ fram yfir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

„Þetta er mjög mikilvægt. ÍSÍ og Icelandair hafa verið í samstarfi nánast frá örófi alda, þannig að þetta skiptir okkur verulegu máli,“ sagði Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Í samningnum er nýtt ákvæði sem felur í sér að þau sérsambönd sem ekki eru með sérstakan styrktarsamning við Icelandair fái afsláttarkjör á fargjöldum Icelandair á samningstímabilinu. Þegar um landsliðshóp sé að ræða skal Icelandair tryggja sérsamböndum ÍSÍ lægsta mögulega hópfargjald.

„Við erum stolt af því að ná samningum við allan þennan hóp. Skiptir okkur ákvaflega miklu máli út á markaðssetningu á félaginu og að sjálfsögðu að íþróttafólk sé að tryggja sér besta kostinn sem völ er á,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Icelandair.

Umfjöllunina í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×