Íslenski boltinn

Guðjón mættur til Indlands en veit ekki hvort hann fær að spila

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Baldvinsson er í ævintýraför.
Guðjón Baldvinsson er í ævintýraför. vísir/stefán
Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar í Pepsi-deld karla í fótbolta, er mættur til Indlands þar sem hann vonast eftir því að spila með liðinu Kerala Blasters næstu mánuðina.

Greint var frá því í gær að Guðjón væri á leið til Indlands og hann staðfestir það sjálfur á Facebook-síðu sinni í morgun en Íslandsvinurinn David James, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Englands, þjálfar liðið og honum til aðstoðar er Hermann Hreiðarsson.

Erfiðlega virðist hjá Guðjóni að fá grænt ljós á að spila fyrir indverska liðið, hvort sem það tengist pappírsvinnu hér heima eða úti, en deildinni þar lýkur í mars þannig að Stjörnumaðurinn á að vera kominn heim áður en Pepsi-deildin fer af stað.

Guðjón tók greinilega ákvörðun um að skella sér alla leið til Indlands þrátt fyrir að vita ekki 100 prósent hvort hann myndi fá að spila en á Facebook segir hann:

„Mættur til Indlands á hugsanlegt lán, kemur í ljós á næstu dögum hvort þetta verði 2ja mánaða ævintýri eða 3ja daga flugferð. Hvað sem gerist þá er ég þakklátur fyrir allar þær upplifanir sem fótboltinn hefur gefið mér og fjölskyldunni í gegnum árin.“

Vísir heyrði hljóðið í Guðjóni í morgun, eða eftir hádegi að indverskum tíma, þar sem hann var rólegur á liðshótelinu að bíða fregna.

„Ég er í rauninni bara að bíða eftir einhverri staðfestingu en ég veit ekki í alveg hver á að gefa hana. Ég held að Stjarnan sé að bíað eftir svari frá FIFA. Ég er á hóteli með liðinu en þarf að kveðja ef þetta klikkar allt saman. Þetta er alveg sturlað,“ sagði Guðjón Baldvinsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×