Skoðun

Vinstri svik

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Fjárlög eru besti vitnisburður um áherslumál ríkisstjórnar enda er verið að ráðstafa peningum skattgreiðenda. Fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Vinstri grænna eru því mikil vonbrigði. Fjárlögin bera vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi í velferðarmálum. Hvorki er ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né er ráðist í nauðsynlega tekjuöflun.

Þegar þessi fjárlög eru borin saman við fjárlagafrumvarp fyrri ríkisstjórnar sem sprakk í haust, frumvarp sem Vinstri græn kölluðu „hægri sveltistefnu“ og „ömurlegt“, kemur í ljós að einungis er gerð 2,2% breyting á milli frumvarpa. Vinstri græn lýsa hins vegar fjárlagafrumvarpi sínu sem „stórsókn“ og „björgun“ í velferðarmálum. Það sjá allir að 2,2% breyting á „ömurlegri hægri sveltistefnu“ getur seint talist vera „stórsókn“ eða vísbending um „stóraukin framlög“ eins og VG hefur lýst því. Fulltrúi Öryrkjabandalagsins kallaði frumvarp VG meira að segja „copy paste“ frá frumvarpi síðustu ríkisstjórnar sem VG átti ekki orð yfir hversu lélegt væri.

Það er sorglegt að sjá að Vinstri græn setja engar viðbótarfjárveitingar í barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisstyrk, fæðingarorlof og húsnæðismál frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði þegar ákveðið að gera áður en VG komst í ráðherrastólana. Allir forsvarsmenn heilbrigðisstofnana og framhaldsskóla, landssamtök eldri borgara og öryrkja lýstu yfir mikilli óánægju með fjárlagafrumvarpið. Landspítalinn fær ekki einu sinni nóg til að halda í horfinu. Heilbrigðisstofnanir úti á landi fá minna en helming af því sem þær óskuðu eftir svo hægt væri að tryggja óbreytta starfsemi.

Þegar tækifæri gafst til að leiðrétta þetta greiddu allir þingmenn VG með tölu atkvæði gegn velferðartillögum Samfylkingarinnar sem VG hafði sjálft lagt fram áður á Alþingi. VG kaus meira að segja gegn auknum fjármunum til aðgerða gegn kynferðislegu ofbeldi. Að sjálfsögðu er ekki hægt að mæta öllum óskum allra en engin af tillögum Samfylkingarinnar hefði sett ríkisfjármálin á hvolf og meira að segja hefðu þær tekjur sem ríkisstjórn ákvað að gefa eftir dugað til að fjármagna þær. Til hvers var eiginlega barist, Vinstri græn?

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×