Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri sem grunaður er um manndráp sem rekja má til stunguárásar á Austurvelli þann 3. desember síðastliðinn er enn í gæsluvarðhaldi. Þetta segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en maðurinn var fyrr í mánuðinum úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. febrúar.
Margeir segir að rannsókn málsins sé á lokametrunum. Maðurinn sem er í haldi er grunaður um að hafa stungið Klevis Sula, tvítugan Albana, með hníf en Klevis lést nokkrum dögum síðar af sárum sínum. Þá er maðurinn einnig grunaður um að hafa stungið vin Klevis sem var með honum í för en hann hlaut minni áverka og var útskrifaður af spítalanum nokkrum dögum eftir árásina.
Aðspurður segir Margeir ekki tímabært að greina frá dánarorsök. Þá vill hann hvorki fara út í það hvað kom út úr eiturefnarannsókn á hinum grunaða né hvort það liggi fyrir játning í málinu en áður en málið verður sent til héraðssaksóknara verður maðurinn yfirheyrður á ný.
Minningarathöfn var haldin í minningu Klevis í í desember. Hann var fæddur þann 31. mars 1997 og hafði aðeins verið hér í nokkra mánuði þegar hann lést. Þá hafði hann áður dvalið hér á landi í nokkra mánuði. Fjölskylda hans hefur sagt að það hafi verið draumur hans að búa á Íslandi og talaði hann afar vel um landið, hversu öruggt það væri og hversu gott fólk byggi hér.
