„Já, loksins. Eftir mikla vinnu, tíma sem ég lagði í þetta og símtöl þá fann ég manninn sem stal pelsinum,“ segir Margrét í samtali við Vísi.
Hún fann vitni, eitt af öðru sem svo sáu manninn um kvöldið. Rakti sig áfram.
„Það tók mig fjóra daga að finna út hver maðurinn er. Ég fékk aðstoð við að safna upplýsingum og fann hann loksins. Hann skilaði pelsinum og bíllyklum. Ég veit að hann er með restina af dótinu en hann vill ekki kannast við það. En, ég ætla mér að ná þessu öllu saman til baka. Vonandi kemst það í réttar hendur,“ segir Margrét en er þar einkum að vísa til síma og húslykla sem voru í pelsinum.

Það er ljóst að Margrét gefst ekki svo auðveldlega upp þegar hún tekur sér eitthvað fyrir hendur. En, þess má geta að hún er dóttir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Þóru Margrétar Baldvinsdóttur hönnuðar. Baldvin Jónsson, sem að undanförnu hefur fengist við markaðssetningu íslensks lambakjöts í Bandaríkjunum, er þannig afi Margrétar og hann er ánægður með sína stelpu. Og segir á Facebooksíðu hennar, í tilefni af þessu, laggott: „Wonderwoman!“
„Já, þetta hefur verið ótrúlegt allt saman. Ég fékk smávægilega aðstoð frá lögreglu, til að sigta út hver hann væri. Ég vildi síst af öllu ganga á rangan mann,“ segir Margrét létt í bragði. „Jájá, ég lagði mig alla fram, er frekar þrjósk og það borgaði sig sannarlega í þetta skiptið.“
Þjófurinn á fertugsaldri
Aðspurð segir Margrét þjófinn ekki vera það sem heitir að vera góðkunningi lögreglunnar. „Nei. En, ef þetta skilar sér ekki allt aftur þá er ekki um annað að ræða í stöðunni en afhenda lögreglunni öll gögn í málinu.“
Margrét vildi ekki að svo stöddu máli upplýsa nánar um þjófinn. Hún telur það ekki rétt. Hún segist aðspurð ekki hafa verið hrædd, en þjófurinn var á fertugsaldri. Margrét telur að hann hafi metið það svo að ekki hafi verið annað í stöðunni fyrir sig en skila þýfinu.
Ég efa að karlmaður vilji að það sé gert veður yfir því að hann hafi verið að ræna kvenmannspelsi af stelpu á þrítugsaldri.Þá fyrst yrði málið vandræðalegt fyrir hann. En, núna vona ég bara að húslyklar og sími skili sér.“