Íslenski boltinn

Stjörnumenn að safna sóknarlínu Ólafsvíkinga | Guðmundur Steinn í Stjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Steinn Hafsteinsson er nýr leikmaður Stjörnunnar.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson er nýr leikmaður Stjörnunnar. Mynd/Fésbókarsíða Stjörnunnar
Framherjinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson mun spila áfram í Pepsi-deildinni næsta sumar en hann hefur yfirgefið Víking úr Ólafsvík og samið við Stjörnuna.

Stjörnunmenn segja frá því á fésbókarsíðu sinni að Guðmundur Steinn Hafsteinsson hafi skrifað undir tveggja ára samning við Garðabæjarliðið.

Það er straumur úr Ólafsvík í Garðabæinn í vetur og það er eins og Stjörnumenn séu hreinlega að safna sóknarlínu Ólafsvíkinga.

Ólafsvíkingar féllu úr Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð og hafa þegar misst tvo bestu sóknarmenn sína í Garðabæinn. Áður hafði Þorsteinn Már Ragnarsson samið við Stjörnuna.  Þessir tveir báru fyrirliðabandið í 22 leikjum Víkinga í Pepsi-deildinni 2017, Guðmundur Steinn var fyrirliði í 16 leikjum en Þorsteinn Már í 6 leikjum.





Guðmundur Steinn er markahæsti leikmaður Víkings Ólafsvíkur í efstu deild en hann deilir því sæti með Hrvoje Tokic sem Ólafsvíkingar misstu til Breiðabliks fyrir síðasta tímabil.

Guðmundur Steinn, sem er 28 ára, stór og stæðilegur framherji, er uppalinn í Val en hann hefur einnig leikið með HK, Fram og ÍBV á ferlinum auk þess sem hann var hjá Notodden í Noregi 2015 og hluta sumars 2016. Guðmundur Steinn hefur skorað 21 mark í 93 leikjum í úrvalsdeild karla þar af 9 mörk í 37 Pepsi-deildar leikjum með Víkingum.

„Guðmundur kemur væntanlega að einhverju leyti til með að fylla skarð Hólmberts Aron Friðjónssonar sem er á leið í atvinnumennsku. Hann er í viðræðum við Íslendingalið Álasunds í Noregi,“ segir í frétt á fésbókarsíðu Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×