Íslenski boltinn

Landsliðskonur flúðu Ítalíu eftir brot á samningum | Látnar búa í óíbúðarhæfu húsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Vísir/Anton
Íslensku landsliðskonurnar Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir hafa spilað sinn síðasta leik fyrir ítalska félagið Verona.

Morgunblaðið segir frá því í morgun að báðar séu þær staddar á Íslandi og voru þannig ekki með Verona liðinu í fyrsta leiknum eftir jólafrí.

Stelpurnar vildu ekki tjá sig um málið við Sindra Sverrisson á Morgunblaðinu en vísuðu á Leikmannasamtök Íslands. Þar ræddi Kristinn Björgúlfsson, framkvæmdastjóri Leikmannasamtaka Íslands mál þeirra Berglindar og Örnu.

„Það liggur alveg ljóst fyrir að það er búið að brjóta samninga við þær í bak og fyrir, og það er bara verið að reyna finna lausn á því hvernig hægt er að leysa þetta,“ sagði Kristinn við Morgunblaðið og bætti svo við:

„Brotin felast meðal annars í því að launagreiðslur hafa borist seint, húsnæði var útvegað seint auk þess sem það var engan veginn íbúarhæft, og fleira. Vandamálið er kannski að það sem okkur finnst í lagi finnst þeim ekki í lagi,“ sagði Kristinn.

Báðar mun þær Berglind og Arna Sif væntanlega spila í Pepsi deild kvenna næsta sumar. Berglind ætlaði alltaf að spila með Breiðabliki en valið hjá Örnu Sif stendur á milli þess að leika áfram með Val eða ganga í raðir Þórs/KA, hennar uppeldisfélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×