Erlent

Allar plastumbúðir verði úr endurvinnanlegu efni

Hersir Aron Ólafsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Allar plastumbúðir innan Evrópusambandsins skulu vera gerðar úr endurvinnanlegu efni fyrir árið 2030. Þetta er meðal markmiða í nýrri áætlun sambandsins, en íbúar nota samtals meira en 190 þúsund plastpoka á mínútu. Ef fram heldur sem horfir verður brátt meira af plasti en fiski í hafinu. 

Tölurnar eru sláandi og það er framtíðarsýnin einnig, en í úttekt sambandsins kemur m.a. fram að aðeins tæp 7% plastpoka sem notaðir eru innan ESB eru endurunnir. Stór hluti þess plasts sem notað er endar hins vegar í hafinu með tilheyrandi afleiðingum fyrir lífríkið.

„Við finnum nú plastpoka og plastleifar í maga sjófugla, fiska og spendýra, t.d. strandaðra hvala. Það þarf því augljóslega að grípa til aðgerða,“ segir Karmenu Vella, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá ESB.

Ef ekki verður gripið til aðgerða óttast sérfræðingar að eftir þrjátíu ár muni hafið innihalda meira af plasti en fiski. Þá þekkjast einnig dæmi þess að plastefni séu farin að koma sér fyrir í lungum fólks og fæðu, með óþekktum afleiðingum. Ný áætlun sambandsins er hins vegar metnaðarfull.

Þannig á, auk þess að gera allt plast úr endurvinnanlegum efnum, að setja skorður við notkun svokallaðs örplasts og leggja umtalsvert meira í nýsköpun og þróun. Veigamesta atriðið er þó einföld vitundarvakning og hvatning til íbúa um að draga úr plastnotkun sinni.

„Um þessar mundir notum við um 100 milljarða plastpoka á ári. Það nemur 200 pokum á mann ár hvert. Það er gríðarleg sóun,“ segir Vella. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×