Trond Giske, varaformaður norska Verkamannaflokksins, hefur stigið tímabundið til hliðar eftir að hann var sakaður um að hafa áreitt stjórnmálakonu í ungliðahreyfingu flokksins kynferðislega.
„Í ljósi aðstæðna fyrir flokkinn, og eðli málsins, höfum við Trond Giske komist að samkomulagi um að hann verði tímabundið leystur frá störfum sem varaformaður,“ sagði formaður Verkamannaflokksins, Jonas Gahr Stoere, í yfirlýsingu í dag. Verkamannaflokkurinn mun funda um brottrekstur Giske á morgun.
Sjá einnig: Sakaður um að hafa áreitt ungliða kynferðislega
Giske, sem hefur verið í veikindaleyfi síðan ásakanirnar litu dagsins ljós í lok desember, tjáði sig jafnframt sjálfur um málið á Facebook-síðu sinni í dag. Þar sagðist hann vona að með því að stíga til hliðar gæti hann svarað almennilega fyrir ásakanirnar, sem hann sagði að hluta til ekki á rökum reistar. Þá ítrekaði Giske í færslunni að hann harmi hegðun sína.
Verkamannaflokkurinn er stærsti flokkurinn á norska þinginu en er í stjórnarandstöðu. Hann hlaut 27,4 prósent fylgi í þingkosningunum í haust.
Giske hefur átt sæti á norska þinginu frá 1997. Hann hefur á ferli sínum gegnt embætti ráðherra kirkju- og menntamála, menningarmála og viðskipta- og iðnaðarmála.