Innlent

Segir 345 prósenta hækkun skapa alvarlegt ástand

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Útflutningsverðmæti sjávarafurða ársins 2016 námu 232 milljörðum.
Útflutningsverðmæti sjávarafurða ársins 2016 námu 232 milljörðum. vísir/stefán
„Ef ekkert verður að gert, þá blæðir okkur bara út. Þetta er grafalvarlegt ástand,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu, um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja.

Lilja Rafney Magnúsdóttirvísir/vilhelm
Til stendur að breyta fyrirkomulagi veiðileyfagjalda og afkomutengja þau. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir tilganginn að skoða samsetningu veiðigjaldanna. Veiðigjöldin séu byggð á tveggja ára gömlum upplýsingum. Það hafi þýtt að 1. september síðastliðinn hafi gjöldin hækkað mjög mikið. Sú hækkun hafi ekki verið í takti við það sem afkoman sýndi.

„Í stjórnarsáttmálanum segir að við ætlum að taka mið af afkomu þegar veiðigjöldin eru annars vegar,“ segir Lilja Rafney við Fréttablaðið.

„Þegar þú eykur skattheimtu milli ára um 345 prósent, þá heggur það í. Þegar þetta snýst um það að 10 til 15 prósent af tekjunum hjá útgerðinni fara í greiðslu veiðigjalda þá þarf að taka það einhvers staðar,“ segir Óðinn. Hann hefur tvenns konar athugasemdir við kerfið eins og það er. Annars vegar að miðað er við afkomu allt annars árs. Hins vegar sé stærstur hluti gjaldsins lagður á vegna bolfiskveiða.

„Það er nauðsynlegt að skoða þetta í samhengi við mismunandi útgerðarflokka og afkomu innan greinarinnar,“ segir Lilja. Skipuð verður þverpólitísk nefnd vegna endurskoðunarinnar þegar þing kemur saman. Lilja segir að reynt verði að vinna eins hratt og mögulegt er og útilokar ekki að gerðar verði breytingar sem nái til yfirstandandi fiskveiðiárs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×