Sævar vakti mikla athygli í vikunni þegar hann lagði til að almenn notkun flugelda yrði bönnuð. Hann sagði umhverfissjónarmið vega þyngra en skemmtanagildi sem felst í því að sprengja flugelda. Þá beindi hann þeim tilmælum til fólks að styrkja björgunarsveitirnar beint í stað þess að kaupa flugelda af þeim og draga þannig úr mengun.
Ætla að hittast og ræða málin eftir áramót
Sævar greindi svo frá því á Twitter-reikningi sínum í dag að þingmaður hefði sett sig í samband við hann vegna málsins. Í samtali við Vísi segir Sævar að hann og þingmaðurinn, Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, ætli að hittast eftir áramót og ræða hugmyndir um takmarkanir á flugeldaskothríð.
Nú hefur þingmaður haft samband til að ræða hugmyndir um takmarkanir á flugeldaskothríð. Frábært! 1. skref: Björgunarsveitir á fjárlög
— Sævar Helgi Bragason (@saevarhb) December 30, 2017
Björgunarsveitir vilji ekki vera settar í fjárlög
Um lausnir á vandanum nefndi Sævar að björgunarsveitir yrðu hafðar með í fjárlögum, sem hann fékk svo síðar að vita að eigi ekki upp á pallborðið hjá björgunarsveitarmönnum.
„Svo hefur verið bent á það að þær [björgunarsveitirnar] vilja það ekki og það er bara fínt, þá finnum við bara aðrar leiðir,“ segir Sævar.
„En í öllu falli þá hljótum við að geta fundið aðferðir til að fjármagna björgunarsveitir án þess að almannavarnir í landinu þurfi að vera háðar flugeldasölu með tilheyrandi mengun og svo framvegis.“
Hann ítrekar jafnframt að það vaki ekki fyrir neinum að eyðileggja skemmtanahald á áramótum. Auðvitað verði lagt upp með að fólk geti áfram haldið áramót á sem skemmtilegastan hátt.

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, segir málefni er varða flugelda á áramótum eitt af sínum áhugamálum. Í samtali við Vísi segist Karl til í að skoða hvort eitthvað sé hægt að gera í mengun og sóðaskap í kringum flugeldana og hyggst ræða við Sævar eftir áramót.
„Þetta er bara mitt áhugamál, ég þekki hann, við erum vinir og ég ætlaði bara að ræða við hann um þetta,“ segir Karl.
Málið er þó ekki á dagskrá hjá flokknum, og ítrekar Karl persónulegan áhuga sinn á málefninu við blaðamann, en segist aðspurður þó vel geta hugsað sér að beita sér fyrir því á alþingi.
„Það getur vel verið. Ég ætlaði bara að skoða þetta með honum Sævari. Það var nú bara málið,“ segir Karl.
Mikil umræða hefur skapast um flugelda fyrir þessi áramót. Björgunarsveitin Kjölur hyggst til að mynda hætta sölu á skoteldum í fjáröflunarskyni vegna álags á árinu og krefjandi verkefna.