Kostnaður við uppsetningu trésins var um 50 þúsund evrur, um sex milljónir króna. Það er rúmlega tuttugu metrar á hæð og var flutt sérstaklega úr ítölsku Ölpunum. Í stað þess að gleðja íbúa og gesti borgarinnar líkt og ætlunin var hefur það hins vegar orðið að táknmynd um slælegan rekstur borgarinnar á síðustu árum.
Eftir að trénu var komið upp þann 8. desember leið ekki á löngu þar til að barrnálarnar fóru að falla. Eftir stendur magurt tré sem hefur orðið skotspónn grínista og ósáttra borgarbúa.
Sjá einnig: Íbúar dansks bæjar ýmist reiðir eða skellihlæjandi vegna jólatrés bæjarins
Tréð hefur fengið viðurnefnið „Spelacchio“ sem í grófri þýðingu má nefna sjúskaður eða sköllóttur.
Andstæðingar Virginia Raggi, borgarstjóra Rómar, hafa einnig nýtt tækifærið og sagt tréð vera enn eitt dæmið um hrörnun borgarinnar þar sem almenningsgarðar hafa fallið í órækt og vegir verið í niðurníðslu.