Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur úrskurðað í kæru Sagafilm um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Sagafilm framleiddi þáttaröðina Kóra Íslands sem sýnd var á Stöð 2 en þættirnir féllu á menningarhlutanum og fá því ekki endurgreiðslu.
Í úrskurðinum er staðfest að Kórar Íslands séu ekki nógu menningarlegt efni til að fá endurgreiðsluna. Ráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur segir meðal annars að í þáttunum sé ekki að sjá neina atburði sem séu hluti af íslenskri menningu. Ráðuneytið sér heldur ekki hvernig verkefnið endurspegli mikilvæg íslensk gildi, það sé engin sögupersóna í þeim og að það sé ljóst að listgreinin þurfi að hafa menningarlegt vægi.

Lagahöfundurinn var kynntur, lagið var flutt í sjónvarpssal og þjóðin kaus svo að lokum.
Þegar Óskalög þjóðarinnar sótti um styrk árið 2015 rann þátturinn í gegnum nálarauga nefndarinnar. Sagafilm er þessa stundina að fara yfir lögfræðilegu hliðina með lögfræðingi sínum og ætlar ekki að una úrskurði ráðuneytisins.
„Við klórum okkur bara í hausnum yfir því hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að menningarlegt gildi þáttanna nái aðeins þremur stigum af þeim 16 sem eru í pottinum,“ segir Þórhallur og bætir við: „Það er áhugavert að skoða þetta í samhengi við sambærilegar þáttaraðir, s.s. Óskalög þjóðarinnar. Uppbygging þessara þáttaraða er afar svipuð; dægur- og sönglög flutt í sjónvarpssal og klippt innslög inn á milli. Áhorfendur velja sitt uppáhaldslag og eitt lag stendur uppi sem sigurvegari. Helsti munurinn virðist vera sá að Óskalögin voru tekin upp fyrir útsendingu en Kórarnir voru í beinni útsendingu. En þar sem í lögunum er ekki tekin nein afstaða til beinna útsendinga skýrir það samt ekki neitt.“
