Sagði Rajoy að hann væri tilbúinn til þess að ræða við þá flokka sem mynda héraðsstjórn. Allar viðræður þurfi þó að vera skynsamlegar og innan ramma laganna. „Þetta býð ég Katalónum vegna þess að mér er annt um þá,“ sagði forsætisráðherrann.

Aðskilnaðarsinnar unnu kosningasigur í héraðsþingkosningum fimmtudagsins. Fengu þeir sjötíu þingsæti og hafa því þriggja þingmanna meirihluta. Blokkin samanstendur af JxCat, flokki Puigdemont, auk Vinstri-Lýðveldisflokksins (ERC) og smáflokksins CUP.
Stærsti flokkurinn á héraðsþinginu verður þó hinn sambandssinnaði Borgaraflokkur. Sá fékk 37 þingmenn og er langstærstur sambandssinnaflokka. Samanlagður er þingstyrkur sambandsblokkarinnar 57 þingmenn en Comu-Podem, sem hefur ekki tekið afstöðu til sjálfstæðismálsins, hefur átta.
Að sögn Rajoy var Ines Arrimadas, leiðtogi Borgaraflokksins, sigurvegari kosninganna. Flokkur Rajoy, Þjóðarflokkurinn (PP), fékk sína verstu kosningu í sögunni í héraðinu og uppskar þrjú þingsæti.
Hefð er fyrir því í Katalóníu að leiðtogi stærsta flokksins geri fyrstu atlögu að héraðsstjórnarmyndun. Sagði Arrimadas þegar úrslit lágu fyrir að erfitt yrði að mynda meirihluta. Það myndi hún samt reyna.
Þrátt fyrir að hafa fengið þingmeirihluta fengu aðskilnaðarsinnar ekki meirihluta atkvæða í kosningunum. Katalónska blaðið El Periódico sagði í gær frá því að niðurstöðurnar sýndu fram á að katalónska þjóðin væri klofin. „Kosningarnar sem Mariano Rajoy boðaði til hafa sýnt að Katalónía er klofin í tvær blokkir.“
Önnur blöð tóku einarðari afstöðu með annarri hvorri blokkinni. Þannig sagði í hinu katalónska El Nacional að spænski forsætisráðherrann hefði verið niðurlægður en í spænska blaðinu La Razón sagði að aðskilnaðarsinnar gætu ekki lengur sagst vera að framfylgja vilja Katalóna.