Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur flutt lögheimili sitt til Akureyrar. Greint var fyrst frá lögheimilisflutningum þingmannsins á vef Ríkisútvarpsins.
Búsetumál Sigmundar Davíðs hafa verið nokkuð til umfjöllunar allt frá því hann flutti lögheimili sitt fyrir alþingiskosningarnar árið 2013 á eyðibýli í Jökulsárhlíð, Hrafnabjörg III, en Sigmundur hafði þar áður búið í Seljahverfinu í Breiðholti og flutti í glæsilegt einbýlishús í Garðabæ í desember árið 2015.
Sigmundur Davíð og eiginkona hans Anna Sigurlaug Pálsdóttir eru nú skráð til heimilis í Aðalstræti 6 á Akureyri. Gerður Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Landssambands Framsóknarkvenna, og Árni Friðriksson eiga húsið en þau eru foreldrar Önnu Kolbrúnar Árnadóttur.
Anna Kolbrún skipaði annað sæti á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi og náðu hún og Sigmundur inn á þing fyrir flokkinn í því kjördæmi í síðustu kosningum.
