Knattspyrnusamband Íslands segir frá því á heimasíðu sinni að markanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins hafi nú ákveðið að fyrra mark Íslands í sigri á Tyrklandi í undankeppni HM 2018 verði skráð á Theodór Elmar.
Markið skoraði Theodór Elmar á Laugardalsvellinum 9. október 2016 eða fyrir 424 dögum síðan.
Ísland vann leikinn 2-0 og komu bæði mörkin á lokamínútum fyrri hálfleiks. Fyrra markið kom á 42. mínútu en Alfreð Finnbogason bætti síðan öðru marki við á 44. mínútu.
Theodór Elmar Bjarnason átti skot á 42. mínútu af 20 metra færi sem fór af tyrkneska varnarmanninum Omer Toprak og í markið.
Þetta fyrra mark Íslands var skráð sem sjálfsmark af FIFA og var þannig skráð í fjórtán mánuði en því hefur nú verið breytt. FIFA skráir nú markið á Theodór Elmar Bjarnason. Í samræmi við það hafa UEFA og KSÍ í kjölfarið breytt sinni skráningu.
Markið má sjá hér fyrir neðan.
Theodór Elmar Bjarnason hefur spilað 38 landsleiki fyrir Ísland en þetta er fyrsta og eina landsliðsmarkið hans.