Starfsmannaleigan Somos fær ekki að setja upp starfsmannabúðir fyrir útlendinga á Tungumelum í Mosfellsbæ, að því er bæjaráðið þar samþykkti í gær.
Bæjarráðið tók ákvörðunina að fenginni umsögn frá umhverfissviði bæjarins. Í henni segir að suðursvæði Tungumela sé óbyggt og ekki deiliskipulagt. Því sé ekki hægt að reisa þar nein mannvirki. Þá sé landið í eigu Landsbankans en ekki Mosfellsbæjar.
Somos vísaði í umsókn sinni til þess að Ístak sé þegar með starfsmannabúðir á Tungumelum. Umhverfissviðið segir það ekki sambærilegt. Samkomulag Ístaks og Mosfellsbæjar um vinnubúðir tryggi aðstöðu þeirra sem gista í búðunum með þjónustu frá höfuðstöðvum fyrirtækisins á sama stað.
„Þar er aðgangur að mötuneyti, starfsmannaaðstöðu, vinnuaðstöðu og þeirri þjónustu sem veitt er að öðru leyti í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Ístak tryggir ferðir og annast ferðaþjónustu þeirra íbúa sem eru í vinnubúðum Ístaks þannig að ekki er þörf á almenningssamgöngum á svæðið,“ segir í umsögninni. Ekki sé að sjá af erindi Somos að þessi þjónusta verði í búðum Somos.
„Ekki eru fyrir hendi skipulagslegar forsendur né nokkur trygging um þjónustu við þá aðila sem búa myndu í slíkum starfsmannabúðum,“ segir í umsögninni sem undirrituð er af framkvæmdastjóra umhverfissviðs og skipulagsfulltrúa bæjarins.
Synjað um búðir fyrir erlent vinnuafl

Tengdar fréttir

Vilja pólskt starfsfólk í ódýrum búðum sem skilað geti hagnaði
Starfsmannaleiga sem sérhæfir sig í innflutningi frá Póllandi segir útlendinga ekki vilja eyða meginhluta launa í húsnæði. Lausnin sé ódýrar starfsmannabúðir sem þess utan geti fært Mosfellsbæ auknar tekjur án útgjalda á móti.