Dauði fiðrildanna Stefán Pálsson skrifar 25. nóvember 2017 15:00 Morðin á systrunum vöktu heimsathygli á sínum tíma, einkum þó í löndum Rómönsku-Ameríku. Hætt er þó við að nöfn þeirra séu gleymd Evrópubúum. Í dag, 25. nóvember, er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum. Hann markar jafnframt upphaf sextán daga átaks til vitundarvakningar um kynbundið ofbeldi. Ákvörðunin um þennan baráttudag var tekin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðla árs 1999 og var dagsetningin valin með það fyrir augum að minnast Mirabal-systranna fá Dóminíska lýðveldinu. Þrjár þeirra voru einmitt myrtar á þessum degi árið 1960. Morðin á systrunum vöktu heimsathygli á sínum tíma, einkum þó í löndum Rómönsku-Ameríku. Hætt er þó við að nöfn þeirra séu flestum Evrópubúum gleymd í dag. Saga þeirra er þó merkileg og samtvinnuð dapurlegri stjórnmálasögu heimalands þeirra á tuttugustu öld. Dóminíska lýðveldið er ríki á austurhluta eyjunnar Hispanjólu í Karíbahafinu, en Haítí er á vesturhlutanum. Eftir að evrópskum yfirráðum lauk var gerð skammvinn tilraun til sameiningar landanna tveggja á fyrri hluta nítjándu aldar. Sú tilraun fór út um þúfur og voru ýfingar milli ríkjanna tveggja um langt árabil, sem mótað hafa sögu svæðisins. Dóminíska lýðveldið hefur eins og önnur ríki í þessum heimshluta fallið undir skilgreint áhrifasvæði Bandaríkjastjórnar, sem hefur leynt og ljóst áskilið sér rétt til að hlutast til um málefni viðkomandi landa. Eftir að Bandaríkin tóku við greftri Panama-skurðarins árið 1904 og luku honum áratug síðar jókst áhugi þeirra á málefnum Hispanjólu til mikilla muna. Bandaríkjastjórn var mjög í mun að tryggja að evrópsk ríki kæmust ekki til áhrifa í Dóminíska lýðveldinu og á Haítí og gætu þannig ógnað umferð um skipaskurðinn.Svikull herforingi Fyrstu áratugir tuttugustu aldar einkenndust af miklum pólitískum óróa í Dóminíska lýðveldinu, með valdaránum, uppreisnartilraunum og pólitískum morðum. Bandarísk yfirvöld fylgdust grannt með og gripu reglulega inn í atburðarásina. Þannig hernámu Bandaríkjamenn landið vorið 1916 og réðu þar ríkjum næstu sex árin. Frjálsar forsetakosningar voru loks haldnar í Dóminíska lýðveldinu árið 1924 og við tók skammvinnt stöðugleikatímabil. Árið 1930 hugðist forsetinn leita eftir endurkjöri, en andstæðingar hans höfðu annað í huga. Rafael Trujillo var metnaðarfullur herforingi sem náð hafði æðstu metorðum í hernum þrátt fyrir að vera rétt tæplega fertugur. Hann gerði leynilegt samkomulag við leiðtoga uppreisnarmanna sem höfðust við í sveitum landsins. Uppreisnarliðið gerði árás á höfuðborgina Santo Domingo, en Trujillo fyrirskipaði hernum að aðhafast ekkert. Forsetinn var hrakinn í útlegð en uppreisnarmenn launuðu Trujillo greiðann með því að styðja hann í forsetakosningunum í kjölfarið. Með hjálp uppreisnarmanna og hersins voru mögulegir mótframbjóðendur Trujillos hræddir frá því að taka þátt í kosningunum, sem urðu hreinn skrípaleikur. Trujillo var lýstur forseti með 99 prósentum atkvæða og hófst þar með langur og blóðugur valdaferill hans. Trujillo breytti Dóminíska lýðveldinu í eins flokks ríki, þar sem aðrar stjórnmálahreyfingar voru bannaðar og nær útilokað að fá embætti eða ná árangri í þjóðfélaginu nema með aðild að flokknum. Stjórnarfarið einkenndist af skefjalausu ofbeldi gegn öllum þeim sem voguðu sér að efast um ágæti forsetans eða gagnrýna hann á nokkurn hátt. Annað einkenni Trujillo-stjórnarinnar var hömlulaus persónudýrkun á leiðtoganum. Nafni höfuðborgarinnar og hæsta fjalls landsins var breytt og hvort tveggja kennt við leiðtogann mikla. Götur, bæir og opinberar byggingar voru nefnd upp á nýtt foringjanum eða ættmennum hans til heiðurs. Trujillo lét sér ekki nægja vegtyllurnar, heldur stjórnaðist hann af gríðarlegri ágirnd. Hann dró sér óhemjuháar upphæðir úr sjóðum ríkisins og sífellt fleiri svið atvinnulífsins komust með tímanum undir stjórn hans og fjölskyldumeðlima. Á skömmum tíma komst Trujillo í hóp ríkustu manna veraldar. Ætla mætti að svo skefjalaus sjálftaka forsetans hefði dugað til þess að snúa almenningi gegn stjórn hans. Efnahagslegar aðstæður voru hins vegar hagstæðar og hagvöxtur mikill í mörgum ríkjum Rómönsku-Ameríku. Trujillo-stjórnin gat því makað krókinn en á sama tíma staðið fyrir ýmsum uppbyggingarverkefnum sem voru til vinsælda fallin. Órói og innanlandserjur áratuganna á undan urðu jafnframt til þess að ýmsir voru til í að styðja stjórn „sterks leiðtoga“ sem stýrði með járnhnefa.Þjóðarmorð Trujillo greip einnig til þess ráðs, sem reynst hefur einræðisherrum vel á öllum tímum, að spila inn á þjóðernishyggju og skapa sameiginlegan óvin. Þann óvin fann Trujillo í fátækum íbúum í landamærahéruðunum, sem áttu uppruna sinn að rekja til Haítí. Árið 1937 rann upp viðbjóðslegasta tímabilið í sögu Trujillo-stjórnarinnar – og er þó af ýmsu að taka – þegar hernum var fyrirskipað að drepa landsmenn sem ættaðir væru frá Haítí, hvar sem til þeirra næðist. Við tók skelfileg sláturtíð þar sem hersveitir fóru um og drápu líklega á bilinu 20-30.000 manns á fáeinum dögum. Flestir voru stungnir með byssustingjum, því talið var að of auðvelt yrði að rekja drápin til hersins ef notast væri við byssukúlur. Atburðir þessir hafa gengið undir nafninu „steinselju-fjöldamorðin“ í Dóminíska lýðveldinu. Byggist það á lífseigri flökkusögn um að hermenn stjórnarinnar hafi stöðvað fólk af handahófi, sýnt þeim steinseljublöð og beðið um að segja um hvers konar jurt væri að ræða. Átti framburðurinn á nafni plöntunnar að fletta ofan af því hvort viðkomandi væri í raun Haítíbúi og því réttdræpur. Hin svívirðilegu þjóðarmorð Trujillo-stjórnarinnar ollu ráðamönnum í Washington nokkru hugarangri, en þó mátu Bandaríkjamenn það sem svo að hagsmunum þeirra væri betur borgið með Trujillo við völd. Á sama hátt var Bandaríkjastjórn lítt skemmt yfir fregnum af óhófslífi Ramfis Trujillo, sonar einræðisherrans, í Hollywood á árunum upp úr 1950. Glaumgosinn Ramfis, sem gerður var að ofursta í dóminíska hernum aðeins fjórtán ára gamall, átti að taka við veldi föður síns, en kaus fremur að lifa ljúfa lífinu innan um kvikmyndastjörnur. Hann var í vinfengi við sumar af frægustu leikkonum sinnar tíðar og jós þær gjöfum: skartgripum, sportbílum og dýrum loðfeldum. Vakti eyðslusemin sérstaka gremju þeirra sem spurðu sig hvers vegna í ósköpunum Bandaríkin væru að veita háar fjárhæðir í stuðning við Dóminíska lýðveldið á sama tíma og þessu færi fram. Heima fyrir sýndi Trujillo þó engin merki um að slaka á klónni. Flokkur hans fékk einatt 100 prósent atkvæða í kosningum, hvort sem Trujillo var sjálfur í framboði til forseta eða fól öðrum að sinna starfinu sem strengjabrúðum. Í kosningunum 1947 þóttist stjórnin þó ætla að heimila stjórnarandstöðunni að bjóða sig fram og starfa, en hinn raunverulegi tilgangur var þó sá einn að draga andstæðinga hans fram í dagsljósið, svo unnt væri að fangelsa þá eða myrða einn af öðrum.Uppreisn fiðrildanna Á sjötta áratugnum færðist pólitísk andstaða við Trujillo-stjórnina í vöxt og voru Mirabal-systurnar hluti af þeirri hreyfingu. Þær voru fjórar talsins, úr bændafjölskyldu. Þrjár þeirra: Patria, Minerva og Maria Teresa, gengu menntaveginn, urðu pólitískt róttækar og giftust mönnum sem deildu stjórnmálaskoðunum með þeim. Systurnar gengu til liðs við hina leynilegu andspyrnuhreyfingu og stofnuðu sinn eigin hóp, sem þær kölluðu „Fiðrildin“ (sp. Las Mariposas). Næstu misserin létu þær til sín taka með ýmsum hætti: gáfu út dreifirit og héldu fundi, en viðuðu einnig að sér upplýsingum um sprengjugerð og vopnaburð. Þær voru handteknar, en sleppt aftur úr haldi og með tímanum urðu þær persónugervingar andófsins gegn Trujillo. Að kvöldi 25. nóvember 1960 stöðvuðu meðlimir öryggislögreglunnar bifreið systranna þriggja. Þær voru dregnar út úr bílnum og barðar til bana. Líkunum var komið fyrir í bíl þeirra og reynt að láta líta út fyrir að um bílslys hefði verið að ræða. Öllum var þó ljóst hvernig í pottinn væri búið og að aftökur þessar hefðu aldrei átt sér stað nema með samþykki einræðisherrans. Reiðibylgjan sem fylgdi í kjölfar morðsins á systrunum varð kröftugri en Trujillo og fantar hans höfðu látið sér til hugar koma. Dóminíska lýðveldið einangraðist í samfélagi ríkja Rómönsku-Ameríku og þegar Trujillo var fáeinum mánuðum síðar bendlaður við misheppnað morðtilræði við erkióvin sinn, forseta Venesúela, var fokið í flest skjól. Bandaríkjastjórn komst að þeirri niðurstöðu að Trujillo væri orðinn skaðlegur bandamaður og valdatími hans yrði senn á enda. Sumarið 1961 var Trujillo veitt fyrirsát og hann skotinn til bana. Deilt er um hvort tilræðismennirnir hafi beinlínis notið aðstoðar bandarísku leyniþjónustunnar eða hvort hún hafi einungis veitt þegjandi samþykki sitt. Kvennabósinn Ramfis gerði skammlífa en vonlitla tilraun til að setjast í stól föður síns, en hrökklaðist fljótlega úr landi ásamt ættmennum sínum með það af þýfinu sem þeim tókst að hafa með sér. Þótt andstæðingar Trujillos fögnuðu dauða einræðisherrans reyndist sigurvíman skammvinn. Samstarfsmenn hins fallna forseta héldu áfram ýmsum þráðum valdsins í höndum sér. Við tók tímabil með valdaránum, ægivaldi hersins og blóðugum pólitískum hreyfingum. Sú niðurstaða hefði væntanlega valdið Mirabal-systrum miklum vonbrigðum, en enn í dag lifa þær sem táknmynd hetjulegrar pólitískrar baráttu kvenna og fórnarlamba ofbeldis. Saga til næsta bæjar Mest lesið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Lífið Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar Lífið Þau eru tilnefnd fyrir verstu kvikmyndagerðina Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Lífið Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Lífið Fleiri fréttir Stærsta þorrablót landsins Fann ástina og setur íbúðina á sölu Fallegustu bækur í heimi eru í Garðabæ Brilljant hugmyndir fyrir bóndadaginn Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Sveitapiltur úr Tungunum stýrir gullnámu á slóðum Eiríks rauða Bleikur draumur í Hafnarfirði Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Snerting ekki tilnefnd til Óskars Í beinni: Verður Snerting tilnefnd til Óskars? Gervais minnist hundsins úr After Life „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Harry fær afsökunarbeiðni Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Meintur stuldur á borð RÚV Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Heiðar Logi og Anný orðin foreldrar Guðni og Margrét selja svansvottaða eign á Selfossi „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Sjá meira
Í dag, 25. nóvember, er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum. Hann markar jafnframt upphaf sextán daga átaks til vitundarvakningar um kynbundið ofbeldi. Ákvörðunin um þennan baráttudag var tekin á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðla árs 1999 og var dagsetningin valin með það fyrir augum að minnast Mirabal-systranna fá Dóminíska lýðveldinu. Þrjár þeirra voru einmitt myrtar á þessum degi árið 1960. Morðin á systrunum vöktu heimsathygli á sínum tíma, einkum þó í löndum Rómönsku-Ameríku. Hætt er þó við að nöfn þeirra séu flestum Evrópubúum gleymd í dag. Saga þeirra er þó merkileg og samtvinnuð dapurlegri stjórnmálasögu heimalands þeirra á tuttugustu öld. Dóminíska lýðveldið er ríki á austurhluta eyjunnar Hispanjólu í Karíbahafinu, en Haítí er á vesturhlutanum. Eftir að evrópskum yfirráðum lauk var gerð skammvinn tilraun til sameiningar landanna tveggja á fyrri hluta nítjándu aldar. Sú tilraun fór út um þúfur og voru ýfingar milli ríkjanna tveggja um langt árabil, sem mótað hafa sögu svæðisins. Dóminíska lýðveldið hefur eins og önnur ríki í þessum heimshluta fallið undir skilgreint áhrifasvæði Bandaríkjastjórnar, sem hefur leynt og ljóst áskilið sér rétt til að hlutast til um málefni viðkomandi landa. Eftir að Bandaríkin tóku við greftri Panama-skurðarins árið 1904 og luku honum áratug síðar jókst áhugi þeirra á málefnum Hispanjólu til mikilla muna. Bandaríkjastjórn var mjög í mun að tryggja að evrópsk ríki kæmust ekki til áhrifa í Dóminíska lýðveldinu og á Haítí og gætu þannig ógnað umferð um skipaskurðinn.Svikull herforingi Fyrstu áratugir tuttugustu aldar einkenndust af miklum pólitískum óróa í Dóminíska lýðveldinu, með valdaránum, uppreisnartilraunum og pólitískum morðum. Bandarísk yfirvöld fylgdust grannt með og gripu reglulega inn í atburðarásina. Þannig hernámu Bandaríkjamenn landið vorið 1916 og réðu þar ríkjum næstu sex árin. Frjálsar forsetakosningar voru loks haldnar í Dóminíska lýðveldinu árið 1924 og við tók skammvinnt stöðugleikatímabil. Árið 1930 hugðist forsetinn leita eftir endurkjöri, en andstæðingar hans höfðu annað í huga. Rafael Trujillo var metnaðarfullur herforingi sem náð hafði æðstu metorðum í hernum þrátt fyrir að vera rétt tæplega fertugur. Hann gerði leynilegt samkomulag við leiðtoga uppreisnarmanna sem höfðust við í sveitum landsins. Uppreisnarliðið gerði árás á höfuðborgina Santo Domingo, en Trujillo fyrirskipaði hernum að aðhafast ekkert. Forsetinn var hrakinn í útlegð en uppreisnarmenn launuðu Trujillo greiðann með því að styðja hann í forsetakosningunum í kjölfarið. Með hjálp uppreisnarmanna og hersins voru mögulegir mótframbjóðendur Trujillos hræddir frá því að taka þátt í kosningunum, sem urðu hreinn skrípaleikur. Trujillo var lýstur forseti með 99 prósentum atkvæða og hófst þar með langur og blóðugur valdaferill hans. Trujillo breytti Dóminíska lýðveldinu í eins flokks ríki, þar sem aðrar stjórnmálahreyfingar voru bannaðar og nær útilokað að fá embætti eða ná árangri í þjóðfélaginu nema með aðild að flokknum. Stjórnarfarið einkenndist af skefjalausu ofbeldi gegn öllum þeim sem voguðu sér að efast um ágæti forsetans eða gagnrýna hann á nokkurn hátt. Annað einkenni Trujillo-stjórnarinnar var hömlulaus persónudýrkun á leiðtoganum. Nafni höfuðborgarinnar og hæsta fjalls landsins var breytt og hvort tveggja kennt við leiðtogann mikla. Götur, bæir og opinberar byggingar voru nefnd upp á nýtt foringjanum eða ættmennum hans til heiðurs. Trujillo lét sér ekki nægja vegtyllurnar, heldur stjórnaðist hann af gríðarlegri ágirnd. Hann dró sér óhemjuháar upphæðir úr sjóðum ríkisins og sífellt fleiri svið atvinnulífsins komust með tímanum undir stjórn hans og fjölskyldumeðlima. Á skömmum tíma komst Trujillo í hóp ríkustu manna veraldar. Ætla mætti að svo skefjalaus sjálftaka forsetans hefði dugað til þess að snúa almenningi gegn stjórn hans. Efnahagslegar aðstæður voru hins vegar hagstæðar og hagvöxtur mikill í mörgum ríkjum Rómönsku-Ameríku. Trujillo-stjórnin gat því makað krókinn en á sama tíma staðið fyrir ýmsum uppbyggingarverkefnum sem voru til vinsælda fallin. Órói og innanlandserjur áratuganna á undan urðu jafnframt til þess að ýmsir voru til í að styðja stjórn „sterks leiðtoga“ sem stýrði með járnhnefa.Þjóðarmorð Trujillo greip einnig til þess ráðs, sem reynst hefur einræðisherrum vel á öllum tímum, að spila inn á þjóðernishyggju og skapa sameiginlegan óvin. Þann óvin fann Trujillo í fátækum íbúum í landamærahéruðunum, sem áttu uppruna sinn að rekja til Haítí. Árið 1937 rann upp viðbjóðslegasta tímabilið í sögu Trujillo-stjórnarinnar – og er þó af ýmsu að taka – þegar hernum var fyrirskipað að drepa landsmenn sem ættaðir væru frá Haítí, hvar sem til þeirra næðist. Við tók skelfileg sláturtíð þar sem hersveitir fóru um og drápu líklega á bilinu 20-30.000 manns á fáeinum dögum. Flestir voru stungnir með byssustingjum, því talið var að of auðvelt yrði að rekja drápin til hersins ef notast væri við byssukúlur. Atburðir þessir hafa gengið undir nafninu „steinselju-fjöldamorðin“ í Dóminíska lýðveldinu. Byggist það á lífseigri flökkusögn um að hermenn stjórnarinnar hafi stöðvað fólk af handahófi, sýnt þeim steinseljublöð og beðið um að segja um hvers konar jurt væri að ræða. Átti framburðurinn á nafni plöntunnar að fletta ofan af því hvort viðkomandi væri í raun Haítíbúi og því réttdræpur. Hin svívirðilegu þjóðarmorð Trujillo-stjórnarinnar ollu ráðamönnum í Washington nokkru hugarangri, en þó mátu Bandaríkjamenn það sem svo að hagsmunum þeirra væri betur borgið með Trujillo við völd. Á sama hátt var Bandaríkjastjórn lítt skemmt yfir fregnum af óhófslífi Ramfis Trujillo, sonar einræðisherrans, í Hollywood á árunum upp úr 1950. Glaumgosinn Ramfis, sem gerður var að ofursta í dóminíska hernum aðeins fjórtán ára gamall, átti að taka við veldi föður síns, en kaus fremur að lifa ljúfa lífinu innan um kvikmyndastjörnur. Hann var í vinfengi við sumar af frægustu leikkonum sinnar tíðar og jós þær gjöfum: skartgripum, sportbílum og dýrum loðfeldum. Vakti eyðslusemin sérstaka gremju þeirra sem spurðu sig hvers vegna í ósköpunum Bandaríkin væru að veita háar fjárhæðir í stuðning við Dóminíska lýðveldið á sama tíma og þessu færi fram. Heima fyrir sýndi Trujillo þó engin merki um að slaka á klónni. Flokkur hans fékk einatt 100 prósent atkvæða í kosningum, hvort sem Trujillo var sjálfur í framboði til forseta eða fól öðrum að sinna starfinu sem strengjabrúðum. Í kosningunum 1947 þóttist stjórnin þó ætla að heimila stjórnarandstöðunni að bjóða sig fram og starfa, en hinn raunverulegi tilgangur var þó sá einn að draga andstæðinga hans fram í dagsljósið, svo unnt væri að fangelsa þá eða myrða einn af öðrum.Uppreisn fiðrildanna Á sjötta áratugnum færðist pólitísk andstaða við Trujillo-stjórnina í vöxt og voru Mirabal-systurnar hluti af þeirri hreyfingu. Þær voru fjórar talsins, úr bændafjölskyldu. Þrjár þeirra: Patria, Minerva og Maria Teresa, gengu menntaveginn, urðu pólitískt róttækar og giftust mönnum sem deildu stjórnmálaskoðunum með þeim. Systurnar gengu til liðs við hina leynilegu andspyrnuhreyfingu og stofnuðu sinn eigin hóp, sem þær kölluðu „Fiðrildin“ (sp. Las Mariposas). Næstu misserin létu þær til sín taka með ýmsum hætti: gáfu út dreifirit og héldu fundi, en viðuðu einnig að sér upplýsingum um sprengjugerð og vopnaburð. Þær voru handteknar, en sleppt aftur úr haldi og með tímanum urðu þær persónugervingar andófsins gegn Trujillo. Að kvöldi 25. nóvember 1960 stöðvuðu meðlimir öryggislögreglunnar bifreið systranna þriggja. Þær voru dregnar út úr bílnum og barðar til bana. Líkunum var komið fyrir í bíl þeirra og reynt að láta líta út fyrir að um bílslys hefði verið að ræða. Öllum var þó ljóst hvernig í pottinn væri búið og að aftökur þessar hefðu aldrei átt sér stað nema með samþykki einræðisherrans. Reiðibylgjan sem fylgdi í kjölfar morðsins á systrunum varð kröftugri en Trujillo og fantar hans höfðu látið sér til hugar koma. Dóminíska lýðveldið einangraðist í samfélagi ríkja Rómönsku-Ameríku og þegar Trujillo var fáeinum mánuðum síðar bendlaður við misheppnað morðtilræði við erkióvin sinn, forseta Venesúela, var fokið í flest skjól. Bandaríkjastjórn komst að þeirri niðurstöðu að Trujillo væri orðinn skaðlegur bandamaður og valdatími hans yrði senn á enda. Sumarið 1961 var Trujillo veitt fyrirsát og hann skotinn til bana. Deilt er um hvort tilræðismennirnir hafi beinlínis notið aðstoðar bandarísku leyniþjónustunnar eða hvort hún hafi einungis veitt þegjandi samþykki sitt. Kvennabósinn Ramfis gerði skammlífa en vonlitla tilraun til að setjast í stól föður síns, en hrökklaðist fljótlega úr landi ásamt ættmennum sínum með það af þýfinu sem þeim tókst að hafa með sér. Þótt andstæðingar Trujillos fögnuðu dauða einræðisherrans reyndist sigurvíman skammvinn. Samstarfsmenn hins fallna forseta héldu áfram ýmsum þráðum valdsins í höndum sér. Við tók tímabil með valdaránum, ægivaldi hersins og blóðugum pólitískum hreyfingum. Sú niðurstaða hefði væntanlega valdið Mirabal-systrum miklum vonbrigðum, en enn í dag lifa þær sem táknmynd hetjulegrar pólitískrar baráttu kvenna og fórnarlamba ofbeldis.
Saga til næsta bæjar Mest lesið Ómerkilegir þættir um merkilega konu Gagnrýni Fann ástina og setur íbúðina á sölu Lífið „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Lífið Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar Lífið Þau eru tilnefnd fyrir verstu kvikmyndagerðina Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Lífið Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Lífið Fleiri fréttir Stærsta þorrablót landsins Fann ástina og setur íbúðina á sölu Fallegustu bækur í heimi eru í Garðabæ Brilljant hugmyndir fyrir bóndadaginn Þetta heita „glöðustu hundar“ bræðranna Sveitapiltur úr Tungunum stýrir gullnámu á slóðum Eiríks rauða Bleikur draumur í Hafnarfirði Konurnar í blauta hádegismatnum kröfuharðastar „Hann er það reiður að hann skaðar sjálfan sig“ Emilia Pérez með met margar tilnefningar til Óskars Snerting ekki tilnefnd til Óskars Í beinni: Verður Snerting tilnefnd til Óskars? Gervais minnist hundsins úr After Life „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Harry fær afsökunarbeiðni Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Myndaveisla: Rífandi stemning og hópsöngur í Breiðholti Kennir óprúttnum aðila um Instagram aðförina að eiginkonunni Meintur stuldur á borð RÚV Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Fyrsta samfélagsmiðlastjarna Íslands: „Ert þú að segja að ég sé feitur?“ Heiðar Logi og Anný orðin foreldrar Guðni og Margrét selja svansvottaða eign á Selfossi „Að maður geti gert allt sjálfur hefur kennt mér margt“ Sjá meira