Þeir segja enn fremur að Trump sé að leyfa Putin að komast upp með afskipti sín og gagnrýna forsetann harðlega.
Trump og Putin ræddust við í gær og eftir samtal þeirra sagði Trump blaðamönnum að Putin hefði sagt að ásakanir um afskipti af kosningum ættu ekki rétt á sér.
„Þetta er annað hvort barnsleg hegðun eða fáfræði sem Trump er að sýna gagnavart Putin,“ sagði Brennan í viðtali á CNN í dag. Hann og Clapper voru báðir í viðtalinu.
Trump gaf í skyn í dag að hann stæði með leyniþjónustum Bandaríkjanna og þá sérstaklega núverandi yfirmönnum stofnananna, sem hann skipaði í embætti. Niðurstöður leyniþjónusta Bandaríkjanna hafa þó ekki breyst frá því að skipt var um yfirmenn þar. Forsetinn dró einnig úr gildi niðurstaðna stofnananna um afskipti Rússa af kosningunum. Washington Post bendir á að Trump virðist hafa reynt að breyta orðum sínum í dag.
Mike Pompeo, núverandi yfirmaður CIA, sagði í gær að hann stæði við niðurstöður stofnunarinnar.
Sjá einnig: Yfirmaður CIA ósammála Trump
Brennan sagði einnig að lærdómurinn sem Putin muni draga frá samskiptum þeirra sé að hægt sé að spila með Trump með því að nýta hégóma og óöryggi forsetans. Það væri áhyggjuefni og sérstaklega með tilliti til öryggis þjóðarinnar.
Clapper sagðist sammála þeirri greiningu.
„Ég skil ekki tvísýnina um þetta mál,“ sagði Brennan. „Putin er staðráðin í því að grafa undan kerfi okkar, lýðræði og stöðu í heiminum. Að reyna að mála það einhvern veginn öðruvísi er stórundarlegt. Í rauninni ógnar það Bandaríkjunum.“
Clapper sagði sömuleiðis að það væri ljóst að Rússar hefðu haft afskipti af kosningunum og það væri „furðulegt að Trump vildi ekki sætta sig við það og þrýsta á Putin“.