Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður Grindavíkur í Pepsi-deild karla í fótbolta, gangi í raðir sænska B-deildarliðsins Helsinborg en það hefur mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir.
„Það er mjög líklegt. Viðræður við þá eru á lokastigi. Hvað varðar fótboltafræðin finnst mér þetta mest spennandi kosturinn sem er í boði,“ segir Andri Rúnar við Vísi.
Andri er samningslaus og getur sænska félagið því fengið hann án greiðslu. „Ég er bara að einblína á þetta núna. Mínir menn hjá Total Football eru að klára þetta fyrir mig,“ segir Andri.
Bolvíkingurinn kom sér í sögubækurnar á síðustu leiktíð þegar að hann skoraði 19 mörk fyrir nýliða Grindavíkur í Pepsi-deildinni. Hann fékk gullskóinn sem markahæsti leikmaður deildarinnar og kom sér í hinn víðfræga 19 marka klúbb.
Helsinborg er í sjötta sæti sænsku B-deildarinnar þegar að ein umferð er eftir en fari Andri Rúnar þangað fetar hann í fótspor leikmanna á borð við Guðlaugs Victors Pálssonar, Arnórs Smárasonar og Alfreðs Finnbogasonar sem allir gerðu frábæra hluti fyrir Helsinborg á síðustu árum.
