Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur næg sönnunargögn til þess að ákæra sex rússneska opinbera starfsmenn í tengslum við innbrot í tölvur landsnefndar Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs í fyrra. Málið gæti komið fyrir dóm á næsta ári.
Wall Street Journal greinir frá þessu og hefur eftir heimildarmönnum sem þekkja til rannsóknarinnar. Blaðið segir að bandarísk yfirvöld vonist til að gera hökkurunum erfitt að ferðast með því að ákæra þá jafnvel þó að ólíklegt sé að þeir verði nokkru sinni ákærðir eða fangelsaðir,
að því er segir í frétt Reuters.
Bandaríska leyniþjónustan hefur komist að þeirri niðurstöðu að rússnesk stjórnvöld hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra til að hjálpa Donald Trump. Þau hafi meðal annars staðið að tölvuinnbroti hjá Demókrataflokknum þar sem þúsundum tölvupósta var stolið. Uppljóstranavefurinn Wikileaks birti skjölin skömmu fyrir kosningarnar.
Rússnesk stjórnvöld hafa neitað því að hafa staðið að baki innbrotinu eða að hafa reynt að hafa áhrif á kosningarnar. Trump hefur einnig þvertekið fyrir að framboð hans hafi átt í samráði við Rússa í aðdraganda kosninganna.
Fyrstu ákærurnar í þeirri rannsókn sem Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálráðuneytisins, stýrir voru gefnar út á mánudag á hendur
fyrrverandi kosningastjóra Trump og tveimur öðrum liðsmönnum framboðsins.
Fyrir utan tölvuinnbrotið er talið að útsendarar Rússa hafi staðið fyrir herferð á samfélagsmiðlum til að ala á sundrungu á meðal Bandaríkjamanna fyrir kosningarnar. Fulltrúar bæði Facebook og Twitter segja að milljónir Bandaríkjamanna hafi séð og brugðist við færslum sem Rússar dreifðu á samfélagsmiðlunum.