Innlent

Fjörutíu prósent aukning á tilkynntum kynferðisbrotum í ár

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrot árið 2016 kemur fram að á árinu bárust 8.648 tilkynningar um hegningarlagabrot en þeim fækkaði um tæplega sjö prósent milli ára.

51% brotanna voru auðgunarbrot og bárust að meðaltali tólf tilkynningar á hverjum degi. Flest þessarar brota eru þjófnaðarbrot en þau hafa ekki verið færri síðan árið 2007.

Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir fækkun auðgunarbrota vera þekkta þegar uppgangur er í samfélaginu. 

277 tilkynningar bárust um kynferðisbrot og þar af 45% vegna nauðgana. Flestar tilkynntar nauðganir urðu í miðbænum, eða 49 talsins. Í fyrra bárust um það bil tíu prósent fleiri tilkynningar um kynferðisbrot en að meðaltali árin 2009 til 2015. Grímur segir erfitt að átta sig á því af hverju tilkynningum fjölgar.

„En öll umræða um kynferðisbrot leiðir til aukningar á tilkynningum," segir Grímur og bætir við að aukningin sé enn meiri í ár. „Það hefur orðið töluverð aukning á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við fyrstu níu mánuði í fyrra, eða fjörutíu prósent." 

Grímur segir þá miklu umræðu sem hefur verið í sumar geta útskýrt fjölgunina í ár en einnig að unnið sé að því með samstarfi ýmissa aðila í Bjarkahlíð að auðvelda aðgengi að lögreglu.

„Þar geta allir þolendur ofbeldis komið og fengið ráðgjöf fagmanna, og við vonumst til að það geti orðið til þess að þeim sem fannst erfitt að leita til lögreglu, finni leiðina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×