Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segir æfingamótið í Katar vera allt öðruvísi verkefni en þau sem liðið hefur verið að fara að undanförnu. Fyrst mun Ísland mæta Tékklandi 8. nóvember og íslenska liðið spilar síðan við heimamenn í Katar sex dögum síðar.
Hópinn má sjá hér.
„Við höfum kallað þetta verkefni stund á milli stríða. Við notuðum það sem „mótivation“ fyrir strákana að ef við myndum sleppa við að fara í umspil þá myndum við fara eitthvað með hópinn sem kom okkur á HM,“ sagði Heimir á blaðamannafundi í dag.
„Við töluðum um við þá að við ætluðum þá að fara á einhvern stað það sem væri aðeins hlýrra og við gætum notið þess að vera saman. Slakað aðeins á og ekki æft eins mikið og við höfum gert,“ sagði Heimir.
Lykilmenn íslenska liðsins munu ekki spila mikið í þessum leikjum ef marka má orð Heimis á fundinum.
„Við gefum væntanlega þeim leikmönnum tækifæri í þessum leikjum sem hafa verið í hópnum en ekki spilað mikið,“ sagði Heimir.
Íslenska liðið hefur spilað mikið á sömu mönnum á leið sinni inn á EM og svo inn á HM.
„Við höfum nánast í hvert einasta skiptið síðustu fimm ár verið að spila úrslitaleik þegar við komum saman. Það er ofsalega þægilegt að fara í eitt verkefni þar sem er ekki allt undir. Við ætlum að reyna að nýta okkur það,“ sagði Heimir.
Heimir: Verkefnið „stund á milli stríða“ í Katar
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
