Skoðun

Klárum verkið

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar
Hagtölur benda til þess að ungt fólk sé í verri stöðu nú á Íslandi en áður. Atvinnutækifærin eru færri, launin eru lægri, eignamyndunin er minni og húsnæðisvandinn snertir öll heimili landsins. Hætta er á að börnin okkar leiti tækifæranna annars staðar frekar en hérlendis, ef ekkert er að gert. Húsnæðisvandinn er grafalvarlegt mál sem við verðum að finna lausn á. Bæta þarf aðgengi að fjármagni, fella niður afborganir námslána og auka framboð af íbúðum víðsvegar um landið.

Svissneska leiðin

Framsókn vill að ungu fólki verði heimilt að taka út iðgjald sem það hefur lagt í lífeyrissjóð og nýta sem útborgun við íbúðarkaup. Í Sviss hefur þessi leið nýst vel til að auðvelda fólki að eignast eigið húsnæði. Hægt er að nýta hluta af lífeyrissjóði sem útborgun og þarf því ekki að greiða vexti til bankana inn á lán af þeirri fjárhæð. Þegar íbúðin er seld er iðgjaldinu skilað aftur inn í lífeyrissjóðinn. Það er bein fjárfesting til þeirra sem nýta.

Lífeyrissjóðurinn er á fyrsta veðrétti og fær því allt sitt til baka. Leiðin skaðar auk þess ekki þá sem nýta sér ekki úrræðið. Þeirra iðgjald er enn inni í viðkomandi lífeyrissjóði og hann sér um ávöxtun á þeim fjármunum. Útfærsluatriði er hvenær lífeyrissjóðurinn fær sitt til baka. Gæti verið við 50 ára aldur. Þá hefur eign í íbúðinni aukist og viðkomandi getur ráðið hvort hann borgar það sama til baka og var tekið út eða greiðir meira.

Þungur baggi

Á sama tíma og ungt fólk með börn er að reyna að eignast heimili eru námslánin oftar en ekki þungur baggi í heimilisrekstri. Framsókn vill að ungt fólk geti frestað afborgunum á námslánum sínum í fimm ár við kaup á fyrstu íbúð.

Jafnframt þarf að koma hreyfingu á húsnæðismarkaðinn með því að auka framboðið af íbúðum. Framsókn vill að í samstarfi við lífeyrissjóðina verði fjárfestir minnst 10 milljarðar árlega til uppbyggingar á 300 hagkvæmum íbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir eldra fólkið.

Klárum nú verkið og búum til stöðugleika í samfélaginu. Getum við ekki öll verið sammála um það?

 

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×