Íslenski boltinn

KR-ingar skoruðu ekki á heimavelli eftir 31. júlí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson skoraði síðasta mark KR á heimavelli í sumar.
Óskar Örn Hauksson skoraði síðasta mark KR á heimavelli í sumar. Vísir/Anton Brink
Markaleysi KR-inga á heimavelli er örugglega ein aðalástæðan fyrir því að KR verður ekki í Evrópukeppninni á næsta tímabili. KR endaði í 4. sæti Pepsi-deildarinnar en Valur, Stjarnan og FH komust í Evrópukeppnina. Það verður örugglega í forgangi að laga þetta hjá nýjum þjálfara KR-liðsins, Rúnari Kristinssyni.

Óskar Örn Hauksson skoraði síðasta mark KR-inga á heimavelli í sumar þegar hann gulltryggði 4-2 sigur á Ólafsvíkingum 31. júlí síðastliðinn. KR tókst ekki að skora á heimavelli síðustu 60 daga Íslandsmótsins.

KR tapaði 1-0 á móti Stjörnunni á Alvogenvellinum um helgina og var það fjórði markalausi heimaleikur KR-liðsins í röð.

KR lék síðustu 365 mínúturnar á KR-vellinum í sumar án þess að ná að skora og mótherjar liðsins skoruðu fjögur síðustu mörkin sem voru skoruð á KR-vellinum tímabilið 2017.

KR skoraði alls 12 mörk í síðasta heimaleiknum sumrin 2016 (3), 2015 (5) og 2014 (4) en Vesturbæjarliðið hafði skorað tvö mörk eða fleiri í síðasta heimaleik sumarsins undanfarin níu tímabil.

Það voru liðin fjórtán ár síðan KR-liðinu tókst ekki að skora í síðasta heimaleiknum (2003) og var Willum Þór Þórsson þá einnig þjálfari. KR-ingar tóku við Íslandsbikarnum eftir þann leik.

Ennfremur voru liðin 27 ár síðan að KR náði ekki að skora í síðustu tveimur heimaleikjum sínum (1980) en þetta í fyrsta sinn í nútímafótbolta (frá 1977) sem KR skorar ekki síðustu fjórum heimaleikjum sínum.

KR-liðið náði aðeins í 4 stig af 27 mögulegum á heimavelli á móti níu efstu liðunum í deildinni en vann alla þrjá heimaleiki sína á móti neðstu liðunum.



Heimaleikir KR-liðsins á móti efstu 9 liðunum í sumar:

1-2 tap fyrir Víkingi R.

2-2 jafntefli við FH

0-1 tap fyrir Grindavík

1-1 jafntefli við Breiðablik

0-0 jafntefli við Val

0-3 tap fyrir ÍBV

0-0 jafntefli við KA

0-1 tap fyrir Stjörnunni

4 stig af 27 mögulegum (15 prósent)

-6 í markatölu

4 mörk skoruð

10 mörk fengin á sig



Heimaleikir KR-liðsins á móti neðstu 3 liðunum í sumar:

2-1 sigur á ÍA

2-0 sigur á Fjölni

4-2 sigur á Víkingi Ó.

9 stig af 9 mögulegum (100 prósent)

+5 í markatölu

8 mörk skoruð

3 mörk fengin á sig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×