Sport

Bronsleikar til heiðurs Völu Flosa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vala Floadóttir bítur í bronsið sitt fyrir sautján árum.
Vala Floadóttir bítur í bronsið sitt fyrir sautján árum. Vísir/Getty
ÍR-ingar minnast um næstu helgi afreks Völu Flosadóttur á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 en þá fara fram Bronsleikar ÍR. Bronsleikarnir eru haldnir að hausti á hverju ári. Frjálsíþróttasamband Íslands segir frá.

Vala Flosadóttir vann til bronsverðlauna í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 og varð fyrsta íslenska konan til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum. Vala er enn í dag eina íslenska konan sem hefur unnið Ólympíuverðlaun.

Vala Flosadóttir tryggði sér bronsið í Sydney með því að stökka 4,50 metra og setja nýtt Íslandsmet. Hin bandaríska Stacy Dragila stökk 4,60 metra og tók gullið en silfrið fékk heimakonan Tatiana Grigorieva frá Ástralíu sem fór yfir 4,55 metra.

Á Bronsleikum er keppt í Fjölþraut barna sem samanstendur af þrautum sem reyna á styrk, snerpu, úthald og samhæfingu. Þrautirnar eru þróaðar sérstaklega fyrir þann aldur sem þær eru lagðar fyrir svo allir ættu að fá skemmtileg viðfangsefni við hæfi.

Leikarnir árið 2017 verða haldnir 7. október næstkomandi og hefst keppnin klukkan 9:00 hjá 7 ára og yngri og 8 til 9 ára. Upphitun í fjórþraut hjá 10 til 11 ára hefst klukkan 10:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×