Íslenski boltinn

KA hefði orðið meistari ef að það hefði verið flautað af í hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-menn fagna hér marki í sumar.
KA-menn fagna hér marki í sumar. Vísir/Eyþór
Nýliðar KA stóðu sig vel á sínu fyrsta tímabili í Pepsi-deildinni í sumar og enduðu í sjöunda sæti deildarinnar.

KA-liðið var í efri hlutanum stærsta hluta mótsins en gaf aðeins eftir í lokin og datt niður í sjöunda sætið þar sem liðið vann aðeins einn sigur í síðustu fimm leikjum sínum.

KA-menn voru hinsvegar liða sterkastir í fyrri hálfleik og hefðu orðið Íslandsmeistarar í ár hefði verið flautað af í hálfleik.  Markatala liðsins fyrir hlé var 20-11 en ekkert lið skoraði meira í fyrri hálfleik.

KA-menn voru yfir í hálfleik í 10 af 22 leikjum sínum og voru í jafnri stöðu í átta leikjum til viðbótar. KA-liðið var undir í hálfleik í aðeins fjórum leikjum og einn af þeim var lokaleikurinn á móti ÍBV í Vestmannaeyjum.

KA var einnig undir í hálfleik í útileik á móti Val, í heimaleik á móti KR og í útileik á móti Fjölni.

Annað lið sem hefði verið miklu ofar í deildinni ef að leikirnir hefðu klárast í hálfleik var lið Eyjamanna sem náði fjórða besta árangrinum í fyrri hálfleik í Pepsi deildinni í sumar.

Ólafsvíkingar hefðu líka bjargað sér frá falli ef að það hefði verið flautað af í hálfleik en nafnar þeirra úr Fossvoginum hefðu aftur á móti fallið úr deildinni.  KR og Grindavík hefðu líka dottið niður um nokkur sæti ef allt hefði verið búið eftir 45 mínútur.



Stig liðanna ef að það hefði verið flautað af í hálfleik.

1. KA 38 stig (+9, 20-11)

2. Valur 37 stig (+11, 18-7)

3. FH 35 stig (+7, 15-8)

4. ÍBV 34 stig (-1, 16-17)

5. Breiðablik 33 stig (+2, 15-13)

6. Stjarnan 31 stig (+3, 18-15)

7. KR 28 stig (+2, 13-11)

8. Fjölnir 25 stig (-3, 12-15)

9. Víkingur Ó. 24 stig (-7, 10-17)

10. Grindavík 21 stig (-5, 11-16)

11. ÍA 20 stig (-8, 10-18)

12. Víkingur R. 16 stig (-10, 8-19)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×