
„Þetta er barátta sem staðið hefur yfir í 45 ár. Þetta byrjaði í Gnúpverjahreppi árið 1972 með fundi sem faðir minn og Birgir Sigurðsson stóðu fyrir,“ segir Sigþrúður Jónsdóttir, formaður Vina Þjórsárvera.
„Síðasta uppþotið var árið 2001 þegar keyra átti Norðlingaölduveitu í gegn. Þetta hefur verið hark á köflum, sérstaklega fyrstu árin. Við þurftum að kæra hitt og þetta og gera alls kyns kúnstir,“ segir Sigþrúður.
„Þetta hefur verið baráttumál í áratugi og er löngu, löngu, löngu tímabært enda er svæðið eitt af krúnudjásnum Íslands,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, formaður Landverndar. „Allt hið einstaka við hálendi Íslands er þarna samankomið. Undirritunin er vonandi lokapunkturinn í að vernda svæðið algjörlega og losna við allar virkjanahugmyndir.“
Þjórsárver voru fyrst friðlýst árið 1981. Núverandi friðland er tæpir 358 ferkílómetrar. Friðlandið mun því rúmlega fjórfaldast að flatarmáli.