Íslenski boltinn

Valsmenn gerðu það í gær sem FH-ingum tókst ekki síðustu tvö ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna titlinum.
Valsmenn fagna titlinum. Vísir/Eyþór
Það voru engir Íslandsmeistara timburmenn hjá Hlíðarendapiltum í gær þegar þeir spiluðu sinn fyrsta leik sem Íslandsmeistarar 2017.

Valsmenn urðu Íslandsmeistarar með sigri á Fjölni fyrir rúmri viku en fylgdu því eftir með sigri á Stjörnunni á útivelli í gær.

Valsmenn gerðu það í gær sem FH-ingum hafði ekki tekist undanfarin tvö tímabil. Síðustu þrjú tímabil hafa Íslandsmeistararnir tryggt sér titilinn fyrir síðustu umferð.

FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í 20. umferð í fyrra og léku næsta leik sex dögum síðar. FH-liðið var þá á útivelli á móti Reykjavíkur Víkingum og urðu að sætta sig við 1-0 tap.

Alex Freyr Hilmarsson skoraði eina mark leiksins strax á 14. mínútu. FH-ingum tókst heldur ekki að vinna lokaleikinn þegar þeir gerðu 1-1 jafntefli við ÍBV á heimavelli.

Árið á undan urðu FH-ingar Íslandsmeistarar í 21. umferð og léku lokaleikinn sinn í deildinni viku síðar.

FH-liðið heimsótti þá Fylki í Árbæ og varð að sætta sig við 3-2 tap.

FH-ingar höfðu því leikið þrjá leiki sem nýkrýndir Íslandsmeistarar undanfarin tvö sumur án þess að vinna leik og uppskeran var aðeins eitt stig af níu mögulegum.

Íslandsmeistaratitilinn 2014 vannst í lokaumferðinni í hreinum úrslitaleik Stjörnunnar og FH sem Garðbæingar unnu í Kaplakrika.

Sumarið 2013 þá urðu KR-ingar Íslandsmeistarar í 21. umferð en fylgdu því eftir með 2-1 sigri á Fram í lokaumferðinni. KR lentu undir í fyrri hálfleik en tryggðu sér sigur með tveimur mörkum á síðustu 25 mínútunum.

Þegar FH-ingar unnu Íslandsmeistarar í 19.umferð sumarið 2012 þá gerðu þeir mikið betur en 2015 og 2016. FH vann þá tvo af síðustu þremur leikjum og gerðu jafntefli í þriðja leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×