Norðmenn flykkjast nú á kjörstaði til að greiða atkvæði í þingkosningum sem fram fara í dag. Skoðanakannanir benda til að mjótt sé á munum milli fylkinga hægri- og vinstriflokka.
Kjörstaðir loka klukkan 21 að staðartíma, eða 19 að íslenskum tíma, en þeir voru einnig opnir í gær víða um land. Útgönguspár verða birtar um leið og kjörstaðir loka en vera kann að endanleg úrslit kunni að dragast þar sem mjótt verði á munum.
Flokksformenn munu mætast í sjónvarpssal í beinni útsendingu á miðnætti líkt og hefð er fyrir á kjördag í Noregi.
Ný skoðanakönnun sýnir að Erna Solberg, forsætisráðherra og formaður Hægriflokksins, njóti meiri stuðnings en Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, til að gegna forsætisráðherraembættinu.
Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn hafa starfað saman í ríkisstjórn síðustu fjögur árin með stuðningi Kristilega þjóðarflokksins og Venstre. Fimm smáflokkar berjast nú fyrir því að tryggja sér nægilega mikið fylgi til að ná mönnum á þing og er ljóst að fylgi þeirra muni hafa mikil áhrif á stjórnarmyndun.
Þess er beðið með nokkurri eftirvæntingu hvort að Knut Arild Hareide, formaður Kristilega þjóðarflokksins, muni mögulega opna á að starfa með Verkamannaflokknum en hann hefur verið gagnrýninn á stefnu Framfaraflokksins í innflytjendamálum.
Solberg heimsótti síðasta heimilið í kosningabaráttunni í Fana í Bergen í gærkvöldi, en áætlað er að samflokksmenn forsætisráðherrans hafi bankað upp á á um 800 þúsund norskum heimilum í kosningabaráttunni. Solberg hefur sagst hafa meiri trú á persónulegum heimsóknum en sms-sendingum.
Í kosningabaráttunni hefur mikið verið rætt um atvinnumál, framtíð olíuiðnaðarins og innflytjendamál.
Könnun Ipsos, sem birt var í lok síðustu viku í Dagbladet, sýnir að 53 prósent aðspurðra telji að Solberg sé best til þess fallin að skipa embætti forsætisráðherra. 42 prósent sögðust telja Støre best til þess fallinn.
