Magni frá Grenivík er kominn upp í Inkasso-deildina. Þetta var ljóst eftir úrslit dagsins í 2. deild.
Magni tapaði 1-3 fyrir Vestra á heimavelli en það gerði ekki til því Afturelding valtaði yfir Víði, 5-1, á sama tíma. Magnamenn fylgja því Njarðvíkingum upp í Inkasso-deildina.
Magni hefur einu sinni áður leikið í næstefstu deild. Það var árið 1979, eða fyrir 38 árum síðan.
Aðeins 350 manns búa á Grenivík sem er eitt minnsta, ef ekki minnsta, sveitarfélagið sem hefur átt lið í næstefstu deild.
Magni hefur farið upp um tvær deildir á aðeins þremur árum. Liðið vann 3. deildina 2015 og endaði svo í 5. sæti 2. deildar í fyrra. Í sumar stigu Magnamenn svo skrefið upp í Inkasso-deildina undir stjórn Páls Viðars Gíslasonar, fyrrverandi þjálfara Þórs.

