Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt fjárfestingastjórann Carla Sands sem næsta sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku.
Sands á í dag sæti í efnahagsráðgjafanefnd Trump forseta og er stjórnarformaður í fjárfestingasjóðnum Vintage Capital. Hún tók við stjórnarformennsku í sjóðnum þegar eiginmaður hennar, Fred Sands, lést árið 2015.
Í frétt danska TV 2 segir að á sínum yngri árum hafi Sands, sem áður hét Carla Herd, átt feril sem leikkona þar sem hún fór meðal annars með hlutverk í sápuóperunni Glæstum vonum (e. The Bold and the Beautiful) árið 1987. Fór hún þar með hlutverk Alex Simpson.
Þá fór hún með aðalhlutverk í ævintýramyndinni Deathstalker III - The Warriors from Hell frá árinu 1988 og í myndinni Wild Zone árið 1989.
Öldungadeild Bandaríkjaþings á enn eftir að staðfesta skipun Sands.
