Skoðun

Fossar til framtíðar í stað Hvalárvirkjunar

Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson skrifar
Nýlega ferðuðumst við undirritaðir fótgangandi með allt á bakinu um fyrirhugað virkjanasvæði Hvalár á Ströndum. Við skoðuðum virkjanasvæðið í heild sinni og gengum eftir þremur helstu vatnsföllunum endilöngum; Rjúkanda, Hvalá og Eyvindar­fjarðará. Í þessum ám eru hundruð fossa og mörg tilkomumikil gljúfur. Við gengum einnig eftir heiðum sem stendur til að leggja undir risastórt uppistöðulón og gistum þar í tjaldi, áður en aftur var haldið niður eftir dölum og gljúfrum þar sem árnar renna í sjó fram. Náttúrufegurðinni er erfitt að lýsa, en auk fossa í öllum stærðum og gerðum blöstu við okkur tjarnir með fuglum og flóru, afskekkt heiðavötn, og strendur þaktar rekaviði. Einstakt veður gerði upplifun okkar á fegurð svæðisins enn sterkari en ella.

Hvalárvirkjun – úlfur í sauðagæru?

Við teljum að mikið skorti á að almenningur hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um fyrirhugaða virkjun í Hvalá og Eyvindarfjarðará. Þetta á sérstaklega við um neikvæð áhrif virkjunarinnar á víðernin á Ströndum, svæði sem teljast meðal helstu náttúruperla Vestfjarða. Ósnortin víðerni eru ekki ótæmandi auðlind enda hafa þau verið skert um 70% á Íslandi á síðustu 70 árum. Staðsetning virkjunarinnar er sérlega viðkvæm, rétt við þröskuld friðlandsins á Hornströndum. Við viljum einnig minna á að í náttúruverndarlögum njóta fossar sérstakrar verndar.

Hvalárvirkjun hefur sífellt verið að stækka á teikniborðinu, og er nú 55 MW, sem er langt umfram orkuþörf Vestfjarða. Nafnið er úlfur í sauðagæru, enda ljóst að auk þeirra 35 MW sem fást með virkjun Hvalár og Rjúkanda bætast 20 MW við með virkjun Eyvindarfjarðarár. Réttara heiti væri því Hvalár-, Rjúkanda- og Eyvindarfjarðarárvirkjun, en í síðastnefndu ánni eru flestir af tilkomumestu fossunum – fossar sem heimamenn segja okkur að þeir myndu sjá mest eftir.

Nýtt umhverfismat

Það er ótrúlegt að svo breyttri „Hvalárvirkjun“ hafi verið laumað í gegnum þarsíðustu Rammaáætlun, án nauðsynlegrar kynningar og umræðu. Það ferli virðist götótt og kanna þarf hvort reglum hafi verið fylgt. Við teljum eðlilega kröfu að umhverfisáhrif virkjunarinnar verði metin að nýju, ekki síst fyrir þá staðreynd að nú er ljóst að tugir tilkomumikilla fossa í Eyvindarfjarðará munu að mestu þurrkast upp. Okkur hefur fundist umræðan um Hvalárvirkjun of einsleit og lítið rætt um aðra valkosti en virkjun til að styrkja byggð í Árneshreppi og efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Við erum sannfærðir um að tækifæri framtíðar liggi fremur í aukinni ferðamennsku þar sem ósnortin víðerni eru í öndvegi.

Einn af tilkomumestu fossunum í Eyvindarfjarðará á Ströndum.
Fossadagatal í 30 daga og stuttmynd

Við mynduðum hátt í hundruð fossa í ferð okkar, suma úr lofti með dróna. Fossarnir hafa margir hverjir ekki sést áður á mynd en stærstu fossarnir, Drynjandi, Rjúkandi, Eyvindarfjarðarárfossar og Hvalárfossar, teljast að okkar mati í hópi tilkomumestu fossa landsins. Við höfum ákveðið að birta myndir okkar af 30 helstu fossunum á Facebook frá og með 1. september og kynna þannig einn foss á dag í 30 daga. Stuttur texti fylgir myndunum sem tala sínu máli og munu vonandi hjálpa fólki að taka upplýsta ákvörðun um fyrirhuguð virkjanaáform.

Fossamyndirnar ætlum við síðan að prenta út í lit og gefa út sem „Fossadagatal“ sem sent verður á alþingismenn, ráðherra, sveitarstjórnir á Vestfjörðum, landeigendur sem selt hafa vatnsréttindi sín í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði, stjórnarmenn í HS Orku og Vesturverki, forsvarsmenn Landsnets, Umhverfisstofnunar, Orkustofnunar og Landverndar. Loks vinnum við að gerð stutts myndbands þar sem raskið af virkjuninni er útskýrt með þrívíddarhönnun. Kostnað berum við sjálfir – enda teljum við málefnið afar brýnt og mikilvægt: að vernda náttúru landsins svo komandi kynslóðir fái að njóta hennar.



Höfundar eru læknar og áhugamenn um útivist og náttúruvernd.




Skoðun

Sjá meira


×