Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Vantaði neista í okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll og félagar eru áfram í 2. sæti Pepsi-deildarinnar.
Rúnar Páll og félagar eru áfram í 2. sæti Pepsi-deildarinnar. vísir/eyþór
Þrátt fyrir 4-0 sigur á Fjölni í kvöld var Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, ekkert hoppandi kátur með frammistöðu sinna manna í leiknum.

„Þetta frábær sigur. Þetta var svolítið skrítinn leikur. Þrátt fyrir að við höfum unnið 4-0 fannst mér vanta neista í okkur. En það var gott að vinna og frammistaðan var góð sem slík,“ sagði Rúnar Páll í samtali við Vísi eftir leik.

En hvað lagði grunninn að sigri Stjörnumanna í kvöld?

„Skipulag og vinnusemi. Svo skoruðum við fjögur mörk,“ sagði Rúnar Páll sem kvaðst ánægður með frammistöðu Ólafs Karls Finsen sem skoraði annað mark Stjörnunnar og var líflegur þann tíma sem hann var inni á vellinum.

„Það er frábært fyrir hann og liðið að byrja inn á og standa sig vel,“ sagði Rúnar Páll.

Stjarnan er áfram í 2. sæti Pepsi-deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Eltingaleikurinn heldur því áfram.

„Við eigum FH hérna á sunnudaginn og þann leik ætlum við að vinna. Það er framhaldið,“ sagði Rúnar Páll að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×