„Hjarta mitt er brostið. Ég átti mér draum um að fara á Ólympíuleikana,“ sagði hún tárvot á blaðamannafundi skömmu eftir að dómurinn var kveðinn upp.
„Mér finnst þetta ósanngjarnt. Mér finnst að það hafi verið komið fram við mig á ósanngjarnan máta í þessu máli,“ sagði hún enn fremur.
Johaug var upphaflega dæmd í þrettán mánaða bann sem hefði gert henni kleift að keppa á leikunum í Pyeongchang í febrúar. En Alþjóðaskíðasambandið áfrýjaði einnig fyrir dómstólnum og vildi fá lengra keppnisbann.
Johaug féll á lyfjaprófi en sterar fundust í sýni hennar á síðasta ári. Hún hélt því fram að hafa notað varasalva þegar hún var við æfingar á Ítalíu. Læknir norska keppnisliðsins útvegaði henni varasalvann sem húnn fékk fyrir sólbruna á vörum.
„Ég tel að ég hafi ekki haft rangt við. Ég fór til sérfræðings sem lét mig fá smyrsli. Ég spurði hvort að það væri á bannlista og hann sagði nei.“
Í úrskurði dómstólsins sagði að Johaug hefði ekki gætt að því að lesa á pakkningu smyrslins, þar sem kom fram að það innihélt lyf sem eru á bannlista Alþjóðalyfjaeftirlitsins. Taldi það viðeigandi refsing að dæma hana í átján mánaða keppnisbann og lengja þar með fyrra bann um fimm mánuði.
Alþjóðaskíðasambandið kvaðst í dag sátt við niðurstöðu dómstólsins.
Myndband frá blaðamannafundi Johaug má sjá hér fyrir neðan.