Halldór Orri Björnsson, leikmaður FH, mátti þakka fyrir að ekki fór verr þegar hann festi puttanna á milli auglýsingaskilta á Samsung-vellinum í leik gegn sínum gömlu félögum í Stjörnunni í gær.
Halldór Orri freistaði þess þá að halda boltanum í leik. Boltinn fór út af vellinum, Halldór Orri reyndi að stoppa sig á auglýsingaskiltunum við hliðarlínuna en festi puttana á milli þeirra.
Halldóri Orra varð sem betur fer ekki meint af og gat haldið leik áfram.
Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Stjarnan er í 2. sæti Pepsi-deildarinnar en FH í því þriðja.
Myndband af atvikinu má sjá í spilaranum hér að ofan. Rétt er að vara viðkvæma við myndbandinu.
