Innlent

Segir leigufélög þrýsta upp leiguverði

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Nauðsynlegt er að stærri hluti íslensks leigumarkaðar verði skipaður félögum sem ekki eru hagnaðardrifin. Þetta segir Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Samtaka leigjenda á Íslandi, en hann telur að aukin umsvif stóru leigufélaganna þrýsti upp leiguverði.

Hólmsteinn segir stöðu leigjenda slæma og gagnrýnir skammtímaleigusamninga sem hann segir allt of algenga hérlendis. Heilt yfir litið vanti um tíu þúsund leiguíbúðir. Ástandið sé ekki eðlilegt.

Leigufélagið Heimavellir birti árshlutareikning sinn fyrir fyrstu sex mánuði ársins í gær. Þar kemur fram að leigutekjur hafi þrefaldast milli ára og námu þær ríflega 1,4 milljörðum króna, en heildarhagnaður nam 1,1 milljarði.

Í tilkynningu segir að auknar leigutekjur félagsins megi rekja til mikillar fjölgunar íbúða á skrá, bæði á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Spilar þar sérstaklega inn sameining félagsins við Ásabyggð, sem var með ríflega 700 eignir í útleigu á Suðurnesjum.

Stefnt er að skráningu Heimavalla í kauphöll Íslands á síðasta fjórðungi ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×