Vísindamenn hafa velt vöngum yfir köldum bletti sem birtist í mælingum og langtímalíkönum um hitastig jarðar sem sýna mikla hlýnun nær alls staðar annars staðar. Þessi kuldapollur er í og yfir hafinu suðvestur af Íslandi.
Leiddar hafa verið líkur að því að mikið magn ferskvatns frá bráðnun íss á Grænlandi trufli veltihringrásina í Atlantshafinu (e. Atlantic Meridional Overturning Circulation (AMOC)).
AMOC er nokkurs konar færiband sem færir hlýjan sjó frá miðbaugi norður á bóginn og kaldan sjó suður frá norðurskautinu. Þessi hringrás hefur veruleg áhrif á loftslag í Evrópu og austanverðri Norður-Ameríku, að því er kemur fram í umfjöllum Washington Post.
Bráðnun hafíssins gæti leikið hlutverk í veikingu hringrásarinnar
Kuldapollurinn gæti verið vísbending um að hægt hafi á þessari hringrás og minni varmi berist því í Norður-Atlantshafið. Áhyggjur manna beinast að því að áframhaldandi hnattræn hlýnun og bráðnun íss muni veikja hringrásina enn frekar.
Ný rannsókn sem birtist í Nature Climate Change fann vísbendingar um að þetta sé í raun það sem er að gerast í Norður-Atlantshafi. Vísindamennirnir sem standa að henni færa einnig rök fyrir því að bráðnun hafíssins geti veikt veltihringrásina og viðhaldið kulda í þessum polli.
Niðurstaða þeirra var sú að til lengri tíma litið hafi aukið flæði ferskvatns út í hafið mest áhrif á veltihringrásina. Loftslagslíkön sem þeir notuðu til að líkja eftir bráðnun hafíssins sýndu veikingu hringrásarinnar og kuldapoll eins og þann sem nú sést við Ísland og Grænland.

„Við erum aðeins með beinar athuganir fyrir síðasta áratuginn og þó að þær hafi sýnt merki um veikingu yfir það tímabil þá hafa aðrar vísbendingar bent til þess að þetta sé sveifla frekar en áframhaldandi veiking,“ segir Laura Jackson, hafhringrásasérfræðingur við Veðurstofu Bretland við Washington Post.