AC Milan vill fá Diego Costa á láni frá Chelsea og gera alvöru atlögu að því að vinna ítalska meistaratitilinn.
Costa hefur verið tjáð að hann eigi sér enga framtíð hjá Chelsea sem hann hefur leikið með undanfarin þrjú ár.
Costa hefur aðallega verið orðaður við sitt gamla félag, Atlético Madrid, í sumar. Vandamálið er hins vegar að Atlético er í félagaskiptabanni og má ekki fá leikmenn fyrr en eftir áramót.
Corriere dello Sport greinir frá því að Milan muni freista þess að fá Costa á láni frá Chelsea.
Milan hefur verið aðsópsmikið á félagaskiptamarkaðinum í sumar og fengið til sín fjölda leikmanna. Milan vill þó bæta framherja í hópinn og auk Costa hefur Andrea Belotti verið orðaður við félagið.

