Skoðun

Öfgasinnaðir mammonistar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Dálkahöfundur sem kallar sig Innherja skrifar stundum í Viðskiptablað Morgunblaðsins og má af hinni ábúðarmiklu nafngift ráða að viðkomandi telur sig innvígðan og í hópi útvalinna; „innherji“ er annars vegar löngu aflögð staða á fótboltavelli og hins vegar sá sem stöðu sinnar vegna veit sitthvað sem aðrir vita ekki um rekstur tiltekinna fyrirtækja og stöðuna í viðskiptalífinu. Nafnið sýnir vissa sjálfsmynd; sambærilegt við að dálkahöfundur kallaði sig Menningarvitann eða Gáfnaljósið – í fullri alvöru.

Vitrunin á fjallinu

Þessir dálkar einkennast af mammonstrúarofsa, eins og verða vill í slíkum safnaðartíðindum, þar sem reynt er að láta öfgafullar kennisetningar mammonista hljóma eins og hvunndagsleg sannindi. Þarna eru stundum viðraðar hugmyndir í anda þeirra trúarbragða að markaðsvæða skuli alla tilveruna, setja verðmiða á allt, koma öllu í eigu einkaaðila, láta allt ganga kaupum og sölum, jörð, vatn, loft, eld.

Innherji skrifaði með öðrum orðum grein á dögunum þar sem spurt er nokkuð höstuglega hvort Esjan eigi að vera ókeypis. Þá hafði hann að eigin sögn gengið í fyrsta sinn á Esjuna og af pistlinum að dæma virðist hann ekki hafa byrjað á því að dásama útsýnið eða gefið sér tíma til að gleðjast yfir eigin elju – eða litið í kringum sig og notið þess að vera einn með vindinum og almættinu: nei, fyrsta hugsun hans á fjallinu er þessi: Af hverju er þetta ókeypis? Af hverju er vellíðan mín ókeypis? Má vellíðan vera ókeypis?

Hann segir: „Það eru þekkt sannindi að menn kunna oft betur að meta hluti sem þeir greiða fyrir en þá sem þeir fá ókeypis“.

Nú má vera að þetta sé kennt sem þriðja lögmál Friedmans í viðskiptafræðideildum háskólanna en þessi fullyrðing verður ekki „þekkt sannindi“ fyrir það. Svona hugsa bara mammonistar. Að baki býr sú trú að mælikvarði allra gæða sé markaðsvirði, peningarnir sem fólk er reiðubúið að greiða fyrir þau. Og það sem ekki sé á markaði og ekki sé greitt fyrir sé þar með einskis virði. Innherja finnst vellíðan sinni eftir fjallgönguna vera sýnd óvirðing þegar ekki býr að baki greiðsla, verða einskis virði, óraunveruleg – ómæld.

Þau eru reyndar mörg til sem kunna því betur að meta hluti sem þau borga minna fyrir þá. Og við, sem ekki erum öfgasinnaðir mammonistar, myndum hins vegar taka svo til orða að það séu einmitt „þekkt sannindi“ að allt hið besta í lífinu sé ókeypis, og fáist ekki keypt: kærleikur, gleði, heilbrigði, faðmlag, hlátur, grátur, samvera, góður svefn, hugsjónir, tenging við almættið, unaðssemdir náttúrunnar – lífsaflið sjálft. Sumt í lífinu er ómetanlegt, verður ekki mælt á peningalegan mælikvarða, getur ekki gengið kaupum og sölum: er hvorki ókeypis né keypis.

Til dæmis Esjan og tilfinning okkar fyrir henni.

Náttúrugæði hf

Nú vitum við ekkert hver sá Innherji er sem heimtar að fá að borga einhverjum þegar honum líður vel – en maður sér bóla á svona hugmyndum æ oftar nú þegar þeim öflum vex ásmegin sem vilja koma fleiri sameiginlegum gæðum landsmanna í eigu einkaaðila, eins og gert var við fiskinn í sjónum á sínum tíma. Næsta verkefni mammonistanna er náttúran. Í síðustu Bólu var mikið reynt í þessum efnum, og gekk þar hart fram einn helsti hugmyndafræðingur og höfundur kvótastefnunnar í sjávarútvegi, Ragnar Árnason prófessor við HÍ. Árið alræmda 2006 var haldin ráðstefna í desember á vegum öfgasinnaðra mammonista í HÍ, sem kalla sig „Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál“. Þar varpaði Ragnar fram þeirri hugmynd að stofnað yrði hlutafélagið „Náttúrugæði hf“ sem tæki við öllum náttúrugæðum í opinberri eigu; allir Íslendingar gætu orðið hluthafar og hver og einn ráðstafað sínum hlut að eigin vild. Það hefði aldeilis verið gaman ef Þingvellir hefðu verið keyptir fyrir aflandskrónur af hrokagikkjunum sem óðu hér uppi á þessum árum – Þingvellir group – en ekki var að heyra að Ragnar hefði áhyggjur af samþjöppun í eignarhaldi. Honum var náttúran raunar hugleikin á þessum árum; tveimur árum fyrr, 2004, hafði hann mælt gegn því að Ísland gerðist aðili að Kyoto-bókuninni, enda hefðu gróðurhúsaáhrifin góð áhrif á íslenskan sjávarútveg. Hann var búinn að reikna það út. Hann er geysilegur hagfræðingur hann Ragnar Árnason, svo mikill að hann væri vís með að reikna það út að heimsendir margborgaði sig.

Hagfræðin er að sönnu nytsamleg grein og getur komið að góðu haldi sem hjálpartæki þegar taka þarf ákvarðanir. En hún segir ekki til um rétt og rangt og þegar kemur að náttúrufræðum er Ragnar augljóslega eins og hver annar grillufangari. Það er allt í lagi að til séu sérvitringar sem telja að Þingvellir og aðrar þjóðargersemar séu best komnar í eigu auðmanna sem rukka svo okkur hin fyrir að koma þar nærri – en óþarfi er að láta sem slíkar grillur séu niðurstaða fræðilegra umþenkinga eða vísindalegra rannsókna.

Innherji klöngraðist sem sé upp á Esju og gleymdi alveg að dást að útsýninu af því að hann var svo mikið að skima eftir einhverjum sem tæki við greiðslum. Fyrir tvöþúsund árum fór annar maður upp á annað fjall – ofurhátt – og samferðamaður hans sýndi honum útsýnið, sem var öll ríki veraldar, og sagði við hann: „Allt þetta mun ég gefa þér ef þú fellur fram og tilbiður mig.“

Hann fékk svarið: „Vík burt Satan.“



Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×