Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Víkingur R. 1-2 | Þriðja tap Grindavíkur í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úr fyrri leik liðanna sem Grindavík vann 1-2.
Úr fyrri leik liðanna sem Grindavík vann 1-2. vísir/anton
Víkingar frá Reykjavík unnu afar kærkominn sigur þegar þeir lögðu Grindvíkinga suður með sjó í kvöld. Sigurinn er sá fyrsti í Pepsi-deildinni í júlí og lyftir þeim upp í 7.sæti deildarinnar. Grindavík er enn í 3.sæti.

Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru í tvígang nálægt því að skora strax á upphafsmínútunum. Fyrst vörðu Víkingar á línu eftir skalla frá Fransisco Cruz og strax í kjölfarið átti Sam Hewson hörkuskot í stöngina á marki Víkinga.

Grindavík voru ívið sterkari í fyrri hálfleiknum þrátt fyrir að Víkingar hafi komist betur inn í leikinn eftir erfiða byrjun. En eftir hlé tóku Víkingar völdin á vellinum. Þeir náðu tökum á miðjunni og heimamenn náðu sér ekki á strik.

Á 69.mínútu kom Vladimir Tufegdzig gestunum yfir með marki af stuttu færi og Ívar Örn Jónsson tvöfaldaði forystuna á 82.mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að markvörðurinn Kristijan Jajalo hafði brotið á Erlingi Agnarssyni inni í teig.

Þrátt fyrir að Andri Rúnar Bjarnason hafi minnkað muninn í uppbótartíma voru Grindvíkingar aldrei nálægt því að jafna og Víkingur tók því stigin þrjú með sér til baka til Reykjavíkur.

Af hverju vann Víkingur?

Þeir stóðu af sér áhlaupið strax í upphafi og unnu sig hægt og rólega inn í leikinn í síðari hálfleik. Þeir náðu völdum á miðjunni eftir hlé og það var lykillinn að þessum sigri. Milos Ozegovic og Arnþór Ingi Kristinsson eru engin lömb að leika sér við á miðjunni og þeir léku vel í síðari hálfleiknum.

Grindvíkingar hafa aðeins misst sjálfstraustið og eins og Óli Stefán þjálfari þeirra benti á eftir leik þá eru hlutirnir einfaldlega ekki að falla með þeim eins og þeir gerðu fyrri hluta mótsins. Hefði skot Sam Hewson í upphafi leiks farið 1-2 sentimetrum innar þá væru Grindvíkingar jafnvel þeir sem hefðu fagnað að leik loknum í kvöld.

Víkingar unnu vel fyrir sigrinum og það var augljóst að í þeirra augum voru þetta þrjú afar kærkomin stig.

Þessir stóðu upp úr:

Milos Ozegovic var öflugur á miðjunni eftir hlé og Arnþór Ingi Kristinsson sömuleiðis. Halldór Smári var traustur í vörninni en Víkingar eru eflaust ósáttir með markið sem þeir fengu á sig alveg í blálokin.

Vladimir Tufegdzig átti ágæta spretti sem og Alex Freyr Hauksson. Þá var þáttur Ívars Arnar Jónssonar mikilvægur í dag en hann átti fyrirgjöf sem leiddi til fyrsta marksins auk þess sem hann var öryggið uppmálað af vítapunktinum.

Hjá Grindavík var Gunnar Þorsteinsson ágætur og Andri Rúnar minnti á sig með ekta framherjamarki. Will Daniels sýndi takta inni á milli en vissi stundum ekki alveg hvað hann átti að gera þegar hann var kominn á ferðina.

Hvað gekk illa?

Grindvíkingum gekk ekki nógu vel að finna taktinn eftir hlé og spurning hvort þeir hafi orðið eitthvað smeykir eftir töpin í síðustu tveimur leikjum. Þeir virkuðu frekar óöruggir og Víkingar tóku völdin á miðjunni.

Óli Stefán þjálfari sagði í viðtali fyrir skömmu að Grindvíkingar þyrftu aðeins eitt stig í viðbót til að ná markmiðum sem þeir settu fyrir tímabilið. Síðan þá hefur ekkert stig komið í hús og spurning hvort þessi orð þjálfarans hafi gert leikmennina eitthvað værukæra. Óli Stefán þvertekur fyrir það og tíminn leiðir í ljós hvort það sé rétt.

Hvað gerist næst?

Víkingar taka á móti ÍBV í næstu umferð sem verða nýkomnir úr Herjólfsdag og á leið í bikarúrslitaleik nokkrum dögum seinna. Spurning hvort Eyjamenn haldi einbeitingu á réttum stað?

Grindvíkingar eiga næst útileik gegn Ólsurum sem eiga í harðri fallbaráttu. Það verður síður en svo auðveldur leikur fyrir Suðurnesjamenn og Óli Stefán fær viku til að undirbúa sína menn fyrir þann slag

Maður leiksins: Milos Ozegovic, Víkingi R - 7

Óli Stefán: Auðvelt að vera þjálfari hjá liði í velgengni
Óli Stefán Flóventsson er þjálfari Grindavíkur.Vísir/Andri Marínó
“Þetta er svona týpískur leikur fyrir okkar stöðu í augnablikinu. Við eigum fantabyrjun, þeir bjarga á línu strax í upphafi og eiga skot í slá. Þegar augnablikið er svona eins og núna þá fellur það ekki alveg með okkur,” sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn Víkingum í Pepsi-deildinni í kvöld.

Grindavík er ennþá í 3.sæti deildarinnar en þetta var þriðji tapleikur liðsins í röð eftir frábæra byrjun á mótinu þar sem þeir töpuðu aðeins einum af sínum fyrstu tíu leikjum.

“Þeir skora frekar ódýr mörk sem á að vera auðvelt að koma í veg fyrir. Við erum bara á þannig kafla núna og þurfum að vera duglegir að vinna til að komast út úr því,” bætti Óli Stefán við.

Grindvíkingar voru ívið sterkari í fyrri hálfleik en komu mjög daufir til leiks í síðari hálfleiknum og þá tóku Víkingar völdin.

“Ég var svolítið svekktur með viðbrögð minna manna í hálfleik. Ég hrósaði þeim í leikhléi því það var kraftur og vilji í því sem við vorum að gera í fyrri hálfleik og mér fannst við líklegir. Svo dettur takturinn úr þessu hjá okkur.”

“Víkingarnir voru ekkert það mikið betri en við í seinni háfleik en þeir fundu þennan seinni bolta sem til dæmis kom þeim yfir. Það hefur svolítið einkennt okkur að við höfum unnið fyrir þessum seinni bolta og þessu klafsi, við höfum lagt allt í það og uppskorið eftir því en það bar ekki á því í seinni hálfleik í dag,” sagði Óli Stefán.

Óli sagði í viðtali við Stöð 2 Sport fyrir stuttu að liðið þyrfti aðeins eitt stig í viðbót til að ná markmiðum sínum fyrir tímabilið. Síðan þá hafa þrír leikir tapast og ekkert stig komið í hús. Eru þessi orð þjálfarans eitthvað að trufla Grindvíkinga?

“Alls ekki. Þú getur unnið á alls konar hátt úr markmiðum. Þau eru bara leið fyrir okkur að vinna eftir og trufla okkur ekkert. Umtalið fór svolítið mikið í þetta og við setjum hlutina upp sem er svolítið þægilegt fyrir ykkur að tala um.”

“Eitt stig, þrjú eða tíu. Þau koma á endanum og við þurfum bara að finna leiðir út úr þessum slæma kafla sem við erum í núna. Ég hef talað um það að þegar við erum í mótbyr þá lærum við mest. Það er auðvelt að vera þjálfari hjá liði í velgengni en það reynir á í mótbyr og við erum að upplifa það,” sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindvíkinga að lokum.

Logi: Sýnum karakter
Logi Ólafsson þjálfari Víkingavísir/stefán
Logi Ólafsson þjálfari Víkinga var kátur eftir sigur hans manna gegn Grindavík í kvöld. Sigurinn er sá fyrsti hjá Víkingum í júlí og Loga var létt þegar hann ræddi við Vísi eftir leik.

“Hlutirnir hafa ekki alveg verið að detta fyrir okkur í síðustu leikjum og þetta var spurning um það hvort við vildum hafa þetta níu stig upp til Grindvíkinga eða bara þrjú,” sagði Logi.

Strax í upphafi voru heimamenn nálægt því að skora í tvígang og Logi var ekki ánægður með þessa byrjun sinna manna.

“Við vorum sofandi í byrjun, alveg þvert á það sem var rætt um fyrir leikinn, og fengum þarna færi á okkur auk þess sem þeir skutu í stöngina. Síðan fannst mér við koma ágætlega til baka og spila síðan vel í síðari hálfleiknum,” en eftir hlé tóku Víkingar völdin og voru betri aðilinn í seinni hálfleik.

Eftir ágæta byrjun undir stjórn Loga í júní hallaði undan fæti hjá Víkingum. Þeir féllu út í bikarnum og unnu ekki í þremur leikjum í deildinni.

“Velgengnin í júní hafði kannski ekki alveg nógu góð áhrif á okkur og það sýnir mikinn karakter hvernig við komum til baka í dag,” sagði Logi að lokum.

Ívar Örn: Rosalegur léttir
Ívar Örn Jónsson, leikmaður Víkinga.Vísir/Andri Marínó
Ívar Örn Jónsson átti ágætan leik í vörn Víkinga í dag og kom við sögu í báðum mörkunum. Hann átti sendingu sem leiddi til fyrsta marksins og skoraði síðan það síðara úr vítaspyrnu.

“Ég er sáttur. Það er alltaf hægt að gera betur samt og við gerum mistök í markinu þarna í lokin. Við hleypum óþarfa spennu í leikinn í lokin en þetta eru gríðarlega mikilvæg stig sem við erum hæstánægðir með,” sagði Ívar Örn Jónsson við Vísi að leik loknum í kvöld.

“Ég var bara að hugsa um að skora, sparka boltanum í markið. Það þarf ekki að vera flóknara en það” sagði Ívar þegar hann var spurður hvað hefði farið í gegnum hugann þegar hann steig á vítapunktinn. Spyrnan var frábær og Kristijan Jajalo átti ekki möguleika í markinu.

Grindvíkingar byrjuðu betur og hefðu getað skorað í upphafi leiks. Víkingar tóku smátt og smátt völdin og Ívar var á því að sigurinn hefði verið sanngjarn.

“Já, mér fannst það. Fyrstu tíu mínúturnar erum við á hælunum og þeir fá tækifæri. Við sleppum með skrekkinn og vinnum okkur inn í leikinn. Við tökum völdin í síðari hálfleik og ég myndi segja að þetta hafi verið frekar sanngjarnt heilt yfir.”

Sigurinn er sá fyrsti hjá Víkingum í síðustu fjórum leikjum í deildinni og kærkominn í því ljósi.

“Þetta er rosalegur léttir. Þetta er frábært að fikra sig upp töfluna og gera sig líklega til að berjast í efri hlutanum. Þar viljum við vera og þetta léttir líka á pressunni að kannski falla ekki of mikið niður töfluna. Við erum hæstánægðir,” sagði Ívar Örn að lokum.


Tengdar fréttir

Óli Stefán: Auðvelt að vera þjálfari hjá liði í velgengni

“Þetta er svona týpískur leikur fyrir okkar stöðu í augnablikinu. Við eigum fantabyrjun, þeir bjarga á línu strax í upphafi og eiga skot í slá. Þegar augnablikið er svona eins og núna þá fellur það ekki alveg með okkur,” sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn Víkingum í Pepsi-deildinni í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira