Ragnar Bragi Sveinsson var í gær lánaður til Fylkis, síns uppeldisfélags, frá Víkingi Reykjavík. 433.is greindi frá þessu.
Tíðindin koma nokkuð á óvart en Ragnar Bragi hefur komið við sögu í alls tíu leikjum með Víkingi í sumar og skorað í þeim eitt mark.
Hann var í byrjunarliði Víkings fimm deildarleiki í röð, kom við sögu sem varamaður í leik gegn Val um miðjan mánuðinn en var ónotaður varamaður þegar Víkingur tapaði fyrir KR um helgina, 3-0.
Ragnar Bragi er uppalinn í Árbænum en gekk í raðir Víkinga eftir að félagið féll úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust. Hann gerði þá þriggja ára samning við Fossvogsliðið.
Hann snýr nú aftur í Árbæinn en Fylkir trónir á toppi Inkasso-deildarinnar eftir þrettán umferðir með 29 stig, tveimur meira en Keflavík og Þróttur.
Ragnar Bragi er kominn með leikheimild og getur því spilað með Fylki sem fer í heimsókn til Keflavíkur í toppslag deildarinnar á fimmtudagskvöld klukkan 19.15.
Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Ragnar Bragi kominn aftur í Fylki
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
