Innlent

Hætt að hanga í tölvunni eftir að ærslabelgur kom í bæinn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Ungmennaráðið í Sandgerði er öflugt og gerir kannanir meðal barna og unglinga til að taka lýðræðislegar ákvarðanir um hvað gera megi betur fyrir unga fólkið í bænum.

Nú nýlega kom ráðið með þá tillögu að fá hoppudýnu, eða ærslabelg, í bæinn og hjólabrettavöll. Hoppudýnan er komin og er mikil ánægja með hana.

Salka Lind Reinhardsdóttir sem er í ungmennaráði segir mikilvægt að hafa eitthvað að gera í svona litlum bæ.

„Við erum búin að sjá það í sumar frá því að hoppudýnan kom upp að það er vanalega hrúga af krökkum á dýnunni. Yfirleitt eru þau í tölvunni inni en núna eru þau komin út. Loksins," segir hún.

Hjóla- og hjólabrettavöllurinn mun rísa á næstu vikum. Og það eru að sjálfsögðu ungmenni sem sjá um að hanna völlinn. Bjarki Snær og Benjamín Smári hafa unnið við það í sumar að skoða myndir og myndbönd af hjólabrettavöllum. Þeir segjast hlakka mikið til að fá völlinn.

„Við erum búnir að bíða eftir þessu frá því við vorum í 7.bekk!" segja þeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×